Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

8. HLUTI

Af hverju leyfir Guð illsku og þjáningar?

Af hverju leyfir Guð illsku og þjáningar?

1. Hvert er upphaf illskunnar?

Guð hefur leyft mönnunum að stjórna nógu lengi til að sýna fram á að þeir séu ófærir um að leysa vandamál mannkyns.

Illskan kom inn í heiminn þegar Satan laug í fyrsta sinn. Hann var upphaflega fullkominn engill en var „ekki staðfastur í sannleikanum“. (Jóhannes 8:44, Biblían 1859) Hann ól með sér löngun til að láta tilbiðja sig en enginn nema Guð á rétt á tilbeiðslu. Satan laug að Evu, fyrstu konunni, og fékk hana til að hlýða sér en ekki Guði. Adam fór að dæmi hennar og óhlýðnaðist Guði. Þannig kallaði Adam þjáningar og dauða yfir mennina. – Lestu 1. Mósebók 3:1-6, 19.

Þegar Satan lagði til að Eva óhlýðnaðist Guði var hann að gera uppreisn gegn drottinvaldi Guðs, það er að segja stöðu hans sem Drottinn alheims. Meirihluti mannkyns hefur farið að dæmi Satans og hafnað Guði sem stjórnanda. Þannig hefur Satan orðið „höfðingi heimsins“. – Lestu Jóhannes 14:30; 1. Jóhannesarbréf 5:19.

2. Var sköpunarverk Guðs gallað?

Öll verk Guðs eru fullkomin. Hann skapaði bæði menn og engla sem voru færir um að hlýða honum fullkomlega. (5. Mósebók 32:4, 5) Guð skapaði okkur þannig að við gætum valið að gera annaðhvort gott eða illt. Við getum notað þetta frelsi til að sýna að við elskum Guð. – Lestu Jakobsbréfið 1:13-15; 1. Jóhannesarbréf 5:3.

3. Af hverju hefur Guð leyft þjáningar hingað til?

Jehóva hefur umborið uppreisn gegn drottinvaldi sínu um takmakaðan tíma. Hann gerir það til að sýna að enginn nema hann geti stjórnað mönnum svo vel fari. (Prédikarinn 7:29; 8:9) Eftir 6.000 ára sögu mannkyns liggur niðurstaðan fyrir. Mönnum hefur ekki tekist að útrýma styrjöldum, glæpum, óréttlæti eða sjúkdómum. – Lestu Jeremía 10:23; Rómverjabréfið 9:17.

Ólíkt stjórnum manna er stjórn Guðs til góðs fyrir þá sem viðurkenna hana. (Jesaja 48:17, 18) Bráðlega bindur Jehóva enda á allar stjórnir manna. Aðeins þeir sem velja hann sem stjórnanda fá að búa á jörðinni. – Jesaja 11:9Lestu Daníel 2:44.

Horfðu á myndskeiðið Af hverju leyfir Guð þjáningar?

4. Hvaða tækifæri fáum við vegna þolinmæði Guðs?

Satan fullyrti að enginn myndi þjóna Jehóva nema af eigingjörnum ástæðum. Langar þig til að afsanna þessa lygi? Þú getur það. Þolinmæði Guðs gefur okkur öllum tækifæri til að sýna hvort við séum hlynnt stjórn hans eða stjórn manna. Við gefum til kynna með lífsstefnu okkar hvorn kostinn við veljum. – Lestu Jobsbók 1:8-11; Orðskviðina 27:11.

5. Hvernig getum við kosið Guð sem stjórnanda okkar?

Ákvarðanir okkar leiða í ljós hvort við viljum Guð sem stjórnanda.

Við getum kosið Guð sem stjórnanda með því að tilbiðja hann eins og lýst er í Biblíunni að við eigum að gera. (Jóhannes 4:23) Við getum hafnað Satan sem stjórnanda með því að líkja eftir Jesú og taka hvorki þátt í stjórnmálum né hernaði. – Lestu Jóhannes 17:14.

Satan notar vald sitt til að stuðla að siðlausu og skaðlegu líferni. Þegar við höfnum slíku líferni má vera að vinir og ættingjar geri gys að okkur eða snúist gegn okkur. (1. Pétursbréf 4:3, 4) Við þurfum því að velja. Ætlum við að umgangast fólk sem elskar Guð? Viljum við hlýða viturlegum og kærleiksríkum lögum hans? Ef við gerum það sýnum við fram á að Satan laug þegar hann fullyrti að enginn myndi hlýða Guði ef það reyndist honum erfitt. – Lestu 1. Korintubréf 6:9, 10; 15:33.

Kærleikur Guðs til mannanna er trygging fyrir því að þjáningar og illska taki enda. Þeir sem sýna að þeir trúa því hljóta eilíft líf hér á jörð. – Lestu Jóhannes 3:16.