Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

13. KAFLI

Virðing fyrir lífinu

Virðing fyrir lífinu
  • Hvernig lítur Guð á lífið?

  • Hvernig lítur Guð á fóstureyðingar?

  • Hvernig sýnum við virðingu fyrir lífinu?

1. Hver skapaði allar lifandi verur?

JEREMÍA spámaður sagði um Jehóva: „Drottinn er sannur Guð. Hann er lifandi Guð.“ (Jeremía 10:10) Jehóva Guð er líka skapari alls sem lifir. Andaverur á himnum sögðu við hann: „Þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Davíð konungur söng í lofsöng til Guðs: „Hjá þér er uppspretta lífsins.“ (Sálmur 36:10) Lífið er því gjöf frá Guði.

2. Hvernig viðheldur Guð lífi okkar?

2 Jehóva viðheldur lífi okkar. (Postulasagan 17:28) Hann gefur okkur matinn sem við borðum, vatnið sem við drekkum, loftið sem við öndum að okkur og jörðina þar sem við búum. (Lestu Postulasöguna 14:15-17.) Hann gerir þetta með þeim hætti að það er ánægjulegt að lifa. En til að njóta lífsins til fulls þurfum við að kynna okkur lög hans og hlýða þeim. — Jesaja 48:17, 18.

AÐ SÝNA VIRÐINGU FYRIR LÍFINU

3. Hvernig leit Guð á morðið á Abel?

3 Jehóva Guð vill að við berum virðingu fyrir lífinu, bæði okkar lífi og annarra. Kain, sonur Adams og Evu, reiddist Abel, yngri bróður sínum. Jehóva varaði hann við að reiðin gæti leitt hann út í alvarlega synd. Kain hunsaði viðvörun Guðs, „réðst . . . á Abel bróður sinn og drap hann“. (1. Mósebók 4:3-8) Jehóva refsaði Kain fyrir bróðurmorðið. — 1. Mósebók 4:9-11.

4. Hvernig lagði Guð áherslu á virðingu fyrir lífinu í Móselögunum?

4 Meira en tvö þúsund árum síðar gaf Jehóva Ísraelsmönnum lög til að auðvelda þeim að þjóna sér á réttan hátt. Þau eru stundum nefnd Móselögin af því að þau voru gefin fyrir milligöngu spámannsins Móse. Í Móselögunum sagði: „Þú skalt ekki morð fremja.“ (5. Mósebók 5:17) Þetta ákvæði sagði Ísraelsmönnum að mannslífið væri dýrmætt í augum Guðs og þeir yrðu að bera virðingu fyrir lífi náungans.

5. Hvernig eigum við að líta á fóstureyðingu?

5 Hvað um líf barns sem er enn í móðurkviði? Samkvæmt Móselögunum var það alvörumál að verða þess valdandi að kona missti fóstur eða barn dæi í móðurkviði þannig að það er ljóst að líf hinna ófæddu er dýrmætt í augum Jehóva. (Lestu 2. Mósebók 21:22, 23; Sálm 127:3.) Þetta þýðir að það er rangt að láta eyða fóstri.

6. Af hverju ættum við ekki að hata náungann?

6 Til að bera virðingu fyrir lífinu er nauðsynlegt að hafa rétt viðhorf til náungans. Biblían segir: „Hver sem hatar bróður sinn er manndrápari og þér vitið, að enginn manndrápari hefur eilíft líf í sér.“ (1. Jóhannesarbréf 3:15) Ef við þráum eilíft líf þurfum við að uppræta úr hjörtum okkar hatur til náungans því að hatur er undirrót flestra ofbeldisverka. (1. Jóhannesarbréf 3:11, 12) Við verðum að læra að elska hvert annað.

7. Nefndu dæmi um hvernig við gætum sýnt óvirðingu fyrir lífinu.

7 Við þurfum sömuleiðis að bera virðingu fyrir lífi sjálfra okkar. Fæstir vilja deyja en sumir stofna lífinu í hættu með því að sækja í ýmsar nautnir. Margir nota tóbak eða fíkniefni sem er skaðlegt fyrir líkamann og dregur neytendur oft til dauða. Það er varla hægt að segja að sá sem notar slík efni að staðaldri telji lífið heilagt. Í augum Guðs óhreinkar það manninn að neyta slíkra efna. (Lestu Rómverjabréfið 6:19; 12:1; 2. Korintubréf 7:1.) Ef við viljum þjóna Jehóva Guði svo að honum líki verðum við að hætta öllu slíku. Það getur verið býsna erfitt en Jehóva getur hjálpað okkur til þess. Og hann metur mikils það sem við gerum til að fara með líf okkar eins og dýrmæta gjöf frá honum.

8. Af hverju ættum við að hugsa vel um öryggismál?

8 Ef við berum virðingu fyrir lífinu gætum við vel að öllum öryggismálum. Þá erum við ekki kærulaus og tökum ekki óþarfa áhættu að gamni okkar eða af því að okkur finnst það spennandi. Við keyrum ekki glannalega og stundum hvorki hættulegar né ofbeldisfullar íþróttir. (Sálmur 11:5) Í Móselögunum segir: „Þegar þú reisir nýtt hús [með flötu þaki], skalt þú gjöra brjóstrið [eða handrið] allt í kring uppi á þakinu, svo að ekki bakir þú húsi þínu blóðsekt, ef einhver kynni að detta ofan af því.“ (5. Mósebók 22:8) Með þessa meginreglu að leiðarljósi sjáum við til þess að stigar og annað á heimili okkar sé í góðu lagi þannig að ekki sé hætta á að einhver detti og slasi sig. Ef við eigum bíl gætum við þess að öll öryggistæki séu í lagi. Við látum hvorki heimilið né bílinn skapa hættu fyrir okkur eða aðra.

9. Hvernig förum við með dýr ef við berum virðingu fyrir lífinu?

9 Líf dýranna er líka heilagt í augum skaparans. Guð leyfir að við slátrum dýrum eða veiðum þau í þeim tilgangi að afla okkur matar og fatnaðar og til að verja líf og limi. (1. Mósebók 3:21; 9:3; 2. Mósebók 21:28) Það er hins vegar rangt að vera grimmur við dýr eða drepa þau sér til gamans. Það sýnir algert virðingarleysi fyrir heilagleika lífsins. — Orðskviðirnir 12:10.

AÐ SÝNA VIRÐINGU FYRIR BLÓÐI

10. Hvernig hefur Guð látið í ljós að það séu tengsl milli lífs og blóðs?

10 Eftir að Kain hafði myrt Abel sagði Jehóva honum: „Blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni!“ (1. Mósebók 4:10) Þegar Guð talaði um blóð Abels átti hann við líf hans. Kain hafði orðið bróður sínum að bana og þurfti að fá refsingu fyrir. Það var rétt eins og blóð Abels, það er að segja líf hans, hrópaði til Jehóva og bæði hann að láta réttlætið ná fram að ganga. Tengslin milli lífs og blóðs eru einnig nefnd eftir Nóaflóðið. Fyrir flóðið höfðu menn einungis borðað ávexti, grænmeti, korn og hnetur. Eftir flóðið sagði Jehóva Nóa og sonum hans: „Allt sem hrærist og lifir, skal vera yður til fæðu, ég gef yður það allt, eins og grænu jurtirnar.“ En hann setti þessi takmörk: „Aðeins hold, sem sálin [eða lífið], það er blóðið, er í, skuluð þér ekki eta.“ (1. Mósebók 1:29; 9:3, 4) Ljóst er að líf og blóð er nátengt í augum Jehóva.

11. Hvað hefur verið bannað síðan á dögum Nóa?

11 Við sýnum virðingu fyrir blóði með því að neyta þess ekki. Jehóva sagði í lögmálinu sem hann gaf Ísraelsmönnum: „Hver sá Ísraelsmanna . . . , sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu. . . . Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ‚Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi.‘ “ (3. Mósebók 17:13, 14) Bannið við því að neyta dýrablóðs var enn í fullu gildi, en Guð hafði sett það á dögum Nóa, um 800 árum áður. Sjónarmið Jehóva Guðs var skýrt: Þjónar hans máttu borða kjöt af dýrum en ekki neyta blóðs þeirra. Þeir áttu að hella blóðinu á jörðina sem táknaði að þeir væru að skila lífi skepnunnar til Guðs.

12. Hvaða ákvæði varðandi blóð gaf heilagur andi á fyrstu öldinni sem er enn í fullu gildi?

12 Kristnir menn þurfa að lúta sams konar banni. Postularnir og fleiri forystumenn kristna safnaðarins á fyrstu öld hittust til að ákveða hvaða boðorðum allir fylgjendur Jesú ættu að fylgja. Þeir komust að eftirfarandi niðurstöðu: „Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta, sem nauðsynlegt er, að þér haldið yður frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum [sem höfðu ekki verið blóðguð] og saurlifnaði.“ (Postulasagan 15:28, 29; 21:25) Við eigum sem sagt að ‚halda okkur frá blóði‘. Í augum Guðs er það jafnmikilvægt og að forðast skurðgoðadýrkun og kynferðislegt siðleysi.

Myndirðu láta gefa þér áfengi í æð ef læknir segði að þú ættir að halda þig frá áfengi?

13. Skýrðu með dæmi hvers vegna ákvæðið um að halda sig frá blóði nær einnig yfir blóðgjafir.

13 Nær ákvæðið um að halda sig frá blóði einnig yfir blóðgjafir? Já. Lýsum því með dæmi: Setjum sem svo að læknir segði þér að halda þig frá áfengi. Væri þá allt í lagi fyrir þig að fá áfengi í æð ef þú gættir þess bara að drekka það ekki? Auðvitað ekki. Að halda sig frá blóði merkir að taka það ekki með nokkru móti inn í líkamann. Fyrirmælin að halda okkur frá blóði merkja að við leyfum ekki að okkur sé gefið blóð í æð.

14, 15. Hvað ætti kristinn maður að gera og hvers vegna ef læknir fullyrti að hann þyrfti að fá blóðgjöf?

14 Hvað er til ráða ef kristinn maður verður fyrir alvarlegu slysi eða þarf að gangast undir stóra skurðaðgerð? Setjum sem svo að læknir segi að hann verði að fá blóðgjöf því að annars deyi hann. Kristinn maður vill auðvitað ekki deyja. Hann þiggur alls konar læknismeðferð án blóðgjafar til að varðveita lífið sem Guð gaf honum. Hann leitar sér því meðferðar, eftir því sem kostur er, þar sem beitt er öðrum úrræðum en blóðgjöf.

15 Myndi kristinn maður brjóta lög Guðs til að geta lifað örlítið lengur í núverandi heimi? Jesús sagði: „Hver sem vill bjarga lífi sínu, mun týna því, og hver sem týnir lífi sínu mín vegna, mun finna það.“ (Matteus 16:25) Okkur langar ekki til að deyja. En ef við brytum lög Guðs til að reyna að bjarga lífinu núna ættum við á hættu að glata eilífa lífinu. Það er því viturlegt af okkur að treysta að lög lífgjafans séu réttmæt og að hann muni eftir okkur í upprisunni og lífgi okkur á ný ef við skyldum deyja af einhverjum orsökum. — Jóhannes 5:28, 29; Hebreabréfið 11:6.

16. Hvað hafa þjónar Guðs einsett sér í sambandi við blóð?

16 Trúir þjónar Guðs hafa einsett sér að fylgja fyrirmælum hans varðandi blóð. Þeir neyta ekki blóðs í nokkurri mynd og þiggja það ekki heldur í lækningaskyni. * Þeir treysta að skapari blóðsins viti hvað er þeim fyrir bestu. Trúir þú að hann geri það?

EINA NOTKUN BLÓÐS SEM GUÐ LEYFIR

17. Hver var eina notkunin á blóði sem Guð leyfði í Forn-Ísrael?

17 Samkvæmt Móselögunum mátti aðeins nota blóð á einn veg. Jehóva sagði eftirfarandi um tilbeiðslu Forn-Ísraelsmanna: „Líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.“ (3. Mósebók 17:11) Þegar Ísraelsmenn syndguðu gátu þeir fengið fyrirgefningu með því að fórna dýri og láta dreypa hluta af blóði þess á altarið í tjaldbúðinni, meðan hún var notuð, og síðar í musterinu. Þetta var eina notkunin á blóði sem Guð leyfði.

18. Hvaða þýðingu getur úthellt blóð Jesú haft fyrir okkur?

18 Móselögin eru ekki bindandi fyrir sannkristna menn og þess vegna færa þeir hvorki dýrafórnir né dreypa blóði dýra á altari. (Hebreabréfið 10:1) Þessi notkun blóðs í Forn-Ísrael var hins vegar fyrirmynd um hina dýrmætu fórn sem sonur Guðs, Jesús Kristur, færði. Eins og fram kom í 5. kafla gaf Jesús mannslíf sitt fyrir okkur með því að leyfa að blóði sínu væri úthellt sem fórn. Síðan steig hann upp til himna og bar andvirði hins úthellta blóðs fram fyrir Guð í eitt skipti fyrir öll. (Hebreabréfið 9:11, 12) Þar með var komin forsenda fyrir því að við gætum fengið syndir okkar fyrirgefnar og leiðin var opnuð til að við gætum hlotið eilíft líf. (Matteus 20:28; Jóhannes 3:16) Ljóst er að þessi notkun blóðs var ákaflega þýðingarmikil. (1. Pétursbréf 1:18, 19) Það er aðeins með því að trúa á gildi hins úthellta blóðs Jesú sem við getum hlotið hjálpræði.

Hvernig getum við sýnt virðingu fyrir lífi og blóði?

19. Hvað þurfum við að gera til að ekki sé okkur „um að saka, þótt einhver glatist“?

19 Við megum vera Jehóva Guði innilega þakklát fyrir að gefa okkur lífið. Ætti það ekki að hvetja okkur til að segja öðrum frá því að þeir eigi kost á eilífu lífi ef þeir trúa á fórn Jesú? Sé okkur annt um líf náungans leggjum við okkur kappsamlega fram við að benda fólki á þessa von. (Esekíel 3:17-21) Ef við rækjum þessa skyldu af einlægni og kostgæfni getum við tekið okkur í munn orð Páls postula þegar hann sagði: „Ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist, því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.“ (Postulasagan 20:26, 27) Að segja fólki frá Jehóva Guði og fyrirætlun hans er góð leið til að sýna að við berum djúpa virðingu fyrir lífi og blóði.

^ gr. 16 Nánari upplýsingar um læknismeðferð án blóðgjafar má finna á bls. 13-17 í bæklingnum How Can Blood Save Your Life?, gefinn út af Vottum Jehóva.