Fimmta Mósebók 1:1–46
1 Móse talaði til alls Ísraels í óbyggðunum á Jórdansvæðinu, á eyðisléttunum á móts við Súf, í grennd við Paran, Tófel, Laban, Haserót og Dí Sabab.
2 Frá Hóreb til Kades Barnea+ eru 11 dagleiðir ef farin er leiðin til Seírfjalla.
3 Á 40. árinu,+ á fyrsta degi 11. mánaðarins, ávarpaði Móse Ísraelsmenn og sagði þeim allt sem Jehóva hafði falið honum að flytja þeim.
4 Þetta var eftir að hann sigraði Síhon,+ konung Amoríta sem bjó í Hesbon, og vann sigur á Óg,+ konungi í Basan, við Edreí, en hann bjó í Astarót.+
5 Það var á Jórdansvæðinu í Móabslandi sem Móse tók að útskýra lögin.+ Hann sagði:
6 „Jehóva Guð okkar sagði við okkur við Hóreb: ‚Þið hafið verið nógu lengi í þessu fjalllendi.+
7 Leggið nú af stað í átt að fjalllendi Amoríta+ og að nágrannasvæðum þeirra, það er Araba,+ fjalllendinu, Sefela, Negeb og sjávarströndinni,+ í átt að landi Kanverja og Líbanon,*+ allt til fljótsins mikla, Efrat.+
8 Ég læt ykkur landið í té. Farið og takið landið sem Jehóva sór að gefa feðrum ykkar, Abraham, Ísak+ og Jakobi,+ og afkomendum þeirra.‘+
9 Ég sagði við ykkur á þeim tíma: ‚Ég get ekki borið ábyrgð á ykkur einn.+
10 Jehóva Guð ykkar hefur fjölgað ykkur svo að nú eruð þið eins mörg og stjörnur himins.+
11 Megi Jehóva, Guð forfeðra ykkar, fjölga ykkur+ þúsundfalt og megi hann blessa ykkur eins og hann hefur lofað.+
12 Hvernig get ég einn borið ábyrgð á ykkur og tekið á vandamálum ykkar og kvörtunum?+
13 Veljið vitra, skynsama og reynda menn úr ættkvíslum ykkar og ég mun skipa þá forystumenn meðal ykkar.‘+
14 Þið svöruðuð mér: ‚Þetta er góð hugmynd hjá þér.‘
15 Ég sótti þá höfðingja ættkvísla ykkar, vitra og reynda menn, og skipaði þá forystumenn meðal ykkar, höfðingja yfir þúsund, yfir hundrað, yfir fimmtíu og yfir tíu og skipaði umsjónarmenn í ættkvíslum ykkar.+
16 Ég gaf dómurum ykkar þessi fyrirmæli: ‚Þegar þið takið fyrir mál milli bræðra ykkar eigið þið að fella réttláta dóma,+ hvort heldur þið dæmið milli tveggja Ísraelsmanna eða Ísraelsmanns og útlendings.+
17 Verið ekki hlutdrægir í dómi.+ Hlustið jafnt á lága sem háa.+ Óttist ekki menn+ því að þið dæmið í umboði Guðs+ og ef mál er ykkur ofviða skuluð þið skjóta því til mín og ég tek það fyrir.‘+
18 Ég gaf ykkur fyrirmæli um allt sem þið áttuð að gera.
19 Síðan héldum við frá Hóreb og fórum gegnum þessar miklu og ógurlegu óbyggðir+ sem þið sáuð, leiðina til fjalllendis Amoríta,+ eins og Jehóva Guð okkar hafði sagt okkur að gera. Að lokum komum við til Kades Barnea.+
20 Þá sagði ég við ykkur: ‚Þið eruð komin að fjalllendi Amoríta sem Jehóva Guð okkar gefur okkur.
21 Jehóva Guð ykkar hefur gefið ykkur landið. Farið og takið það eins og Jehóva, Guð forfeðra ykkar, hefur sagt ykkur að gera.+ Óttist ekki né skelfist.‘
22 En þið komuð öll til mín og sögðuð: ‚Sendum menn á undan okkur til að kanna landið og segja okkur síðan hvaða leið við eigum að fara og hvers konar borga við komum til.‘+
23 Mér þótti það góð hugmynd svo að ég valdi 12 menn úr ykkar hópi, einn úr hverri ættkvísl.+
24 Þeir fóru upp í fjalllendið,+ komu í Eskoldal og könnuðu hann.
25 Þeir tóku með sér dálítið af ávöxtum landsins og færðu okkur, og þeir sögðu: ‚Það er gott land sem Jehóva Guð okkar gefur okkur.‘+
26 En þið neituðuð að fara þangað og gerðuð uppreisn gegn fyrirmælum Jehóva Guðs ykkar.+
27 Þið nöldruðuð í tjöldum ykkar og sögðuð: ‚Jehóva hatar okkur. Þess vegna leiddi hann okkur út úr Egyptalandi til að selja okkur í hendur Amorítum og útrýma okkur.
28 Á hvers konar stað erum við eiginlega að fara? Bræður okkar drógu úr okkur kjark*+ og sögðu: „Fólkið er stærra og sterkara en við og borgirnar eru stórar og með himinháum múrum+ og svo sáum við Anakíta+ þar.“‘
29 Þá sagði ég við ykkur: ‚Óttist ekki. Látið þá ekki skelfa ykkur.+
30 Jehóva Guð ykkar fer á undan ykkur og berst fyrir ykkur+ rétt eins og hann gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi.+
31 Í óbyggðunum sáuð þið hvernig Jehóva Guð ykkar bar ykkur hvert sem þið fóruð þangað til þið komuð hingað, rétt eins og maður ber son sinn.‘
32 En þrátt fyrir allt þetta treystuð þið ekki á Jehóva Guð ykkar+
33 sem fór á undan ykkur á leiðinni til að finna tjaldstað handa ykkur. Hann birtist í eldi á nóttinni og skýi á daginn til að vísa ykkur veginn sem þið áttuð að fara.+
34 Jehóva heyrði allan tímann hvað þið sögðuð og hann reiddist og sór hátíðlega:+
35 ‚Enginn maður af þessari illu kynslóð fær að sjá landið góða sem ég sór að gefa feðrum ykkar+
36 nema Kaleb Jefúnneson. Hann fær að sjá það og ég gef honum og sonum hans landið þar sem hann gekk vegna þess að hann hefur fylgt Jehóva af heilum hug.*+
37 (Jehóva reiddist mér jafnvel vegna ykkar og sagði: „Þú færð ekki heldur að fara þangað.+
38 Jósúa Núnsson þjónn þinn*+ fær að ganga inn í landið.+ Stappaðu í hann stálinu*+ því að hann mun fara fyrir Ísraelsmönnum þegar þeir taka landið.“)
39 Og börn ykkar, sem þið sögðuð að yrðu tekin herfangi,+ og synir ykkar, sem kunna ekki enn að greina gott frá illu, fá að fara inn í landið og ég gef þeim það til eignar.+
40 Þið skuluð hins vegar snúa við og fara út í óbyggðirnar, leiðina til Rauðahafs.‘+
41 Þá sögðuð þið við mig: ‚Við höfum syndgað gegn Jehóva. Nú skulum við fara og berjast eins og Jehóva Guð okkar hefur skipað okkur!‘ Þið herklæddust allir og hélduð að það yrði hægðarleikur að komast upp í fjalllendið.+
42 En Jehóva sagði mér að segja ykkur: ‚Þið skuluð ekki fara og berjast því að ég verð ekki með ykkur.+ Ef þið farið bíðið þið ósigur fyrir óvinum ykkar.‘
43 Ég sagði ykkur þetta en þið hlustuðuð ekki heldur gerðuð uppreisn gegn skipun Jehóva og sýnduð þann hroka að reyna að komast upp í fjalllendið.
44 Amorítarnir sem bjuggu í fjalllendinu réðust þá gegn ykkur, eltu ykkur eins og býflugur, tvístruðu ykkur í Seír og hröktu ykkur allt til Horma.
45 Þið sneruð til baka og grétuð frammi fyrir Jehóva en Jehóva hlustaði ekki á ykkur og gaf ykkur engan gaum.
46 Þess vegna dvöldust þið svona lengi í Kades.
Neðanmáls
^ Það er, Líbanonsfjallgarðinum.
^ Orðrétt „létu hjörtu okkar bráðna“.
^ Orðrétt „fullkomlega“.
^ Orðrétt „sem stendur frammi fyrir þér“.
^ Eða hugsanl. „Guð hefur styrkt hann“.