Jósúabók 22:1–34
22 Jósúa kallaði nú til sín Rúbeníta, Gaðíta og hálfa ættkvísl Manasse
2 og sagði við þá: „Þið hafið fylgt öllum fyrirmælum Móse þjóns Jehóva+ og þið hafið hlýtt öllu sem ég fyrirskipaði ykkur.+
3 Þið hafið ekki brugðist bræðrum ykkar allan þennan tíma, allt til þessa dags.+ Þið hafið gert skyldu ykkar og haldið boðorð Jehóva Guðs ykkar.+
4 Nú hefur Jehóva Guð ykkar veitt bræðrum ykkar frið og ró eins og hann lofaði þeim.+ Þið megið nú snúa aftur til tjalda ykkar í landinu sem Móse þjónn Jehóva gaf ykkur til eignar hinum megin* Jórdanar.+
5 En gætið þess vandlega að halda boðorðin og lögin sem Móse þjónn Jehóva gaf ykkur.+ Þið eigið að elska Jehóva Guð ykkar,+ ganga á öllum vegum hans+ og halda boðorð hans,+ halda ykkur fast við hann+ og þjóna honum+ af öllu hjarta og allri sál.“*+
6 Síðan blessaði Jósúa þá og lét þá fara og þeir héldu heimleiðis.*
7 Móse hafði gefið hálfri ættkvísl Manasse erfðaland í Basan+ og Jósúa gaf hinum helmingi ættkvíslarinnar land vestan við Jórdan+ með bræðrum þeirra. Þegar Jósúa lét þá fara heim* blessaði hann þá
8 og sagði við þá: „Snúið aftur heim* með mikinn auð, mikið búfé, með silfur og gull, kopar og járn og mikið af fatnaði.+ Skiptið með bræðrum ykkar herfanginu+ sem þið tókuð af óvinum ykkar.“
9 Rúbenítar, Gaðítar og hálf ættkvísl Manasse skildu síðan við hina Ísraelsmennina í Síló í Kanaanslandi og sneru heim til Gíleaðlands,+ landsins sem þeir höfðu fengið til eignar og sest að í, rétt eins og Jehóva hafði gefið Móse fyrirmæli um.+
10 Þegar Rúbenítar, Gaðítar og hálf ættkvísl Manasse komu að Jórdansvæðinu í Kanaanslandi reistu þeir altari þar við Jórdan, stórt og mikið altari.
11 Aðrir Ísraelsmenn fréttu það+ og sögðu: „Rúbenítar, Gaðítar og hálf ættkvísl Manasse hafa reist altari við landamæri Kanaanslands á Jórdansvæðinu þeim megin sem tilheyrir okkur.“
12 Þegar Ísraelsmenn fréttu þetta safnaðist allt fólkið saman í Síló+ til að fara í stríð við þá.
13 Síðan sendu þeir Pínehas,+ son Eleasars prests, til Rúbeníta, Gaðíta og hálfrar ættkvíslar Manasse í Gíleaðlandi.
14 Með honum voru tíu höfðingjar, einn fyrir hverja ættkvísl Ísraels, hver þeirra höfðingi ættar sinnar meðal þúsunda* Ísraels.+
15 Þeir komu til Rúbeníta, Gaðíta og hálfrar ættkvíslar Manasse í Gíleaðlandi og sögðu við þá:
16 „Allur söfnuður Jehóva segir: ‚Hvernig gátuð þið svikið+ Guð Ísraels? Þið hafið snúið baki við Jehóva með því að reisa ykkur altari og gera uppreisn gegn Jehóva.+
17 Var ekki nóg að við skyldum syndga við Peór? Við höfum ekki hreinsað okkur af því enn þann dag í dag þó að plága hafi komið yfir söfnuð Jehóva.+
18 Og nú ætlið þið að snúa baki við Jehóva! Ef þið gerið uppreisn gegn Jehóva í dag lætur hann reiði sína bitna á öllum söfnuði Ísraels+ á morgun.
19 Ef ástæðan er sú að landið sem þið eigið er óhreint skuluð þið koma yfir á eignarland Jehóva+ þar sem tjaldbúð Jehóva stendur+ og setjast að meðal okkar. En gerið ekki uppreisn gegn Jehóva og gerið okkur ekki að uppreisnarmönnum með því að reisa ykkur annað altari en altari Jehóva Guðs okkar.+
20 Kom ekki reiði Guðs yfir allan söfnuð Ísraels+ þegar Akan+ Seraksson reyndist ótrúr og óhlýðnaðist fyrirmælunum um það sem átti að eyða?* Og hann var ekki sá eini sem dó fyrir þessa synd.‘“+
21 Þá svöruðu Rúbenítar, Gaðítar og hálf ættkvísl Manasse höfðingjum þúsunda* Ísraels:+
22 „Jehóva, Guð guðanna!* Jehóva, Guð guðanna!+ Hann veit af hverju við gerðum þetta og Ísrael skal líka fá að vita það. Ef við höfum gert uppreisn og svikið Jehóva skaltu ekki þyrma okkur í dag.
23 Ef við reistum okkur altari til að snúa baki við Jehóva og til að færa brennifórnir, kornfórnir og samneytisfórnir á því mun Jehóva refsa okkur.+
24 Nei, við gerðum þetta af annarri ástæðu. Við hugsuðum sem svo að í framtíðinni myndu synir ykkar segja við syni okkar: ‚Hvað kemur Jehóva Guð Ísraels ykkur við?
25 Jehóva hefur sett Jórdan sem landamæri milli okkar og ykkar, Rúbeníta og Gaðíta. Þið hafið engan rétt til að þjóna Jehóva.‘ Og synir ykkar munu hindra syni okkar í að tilbiðja* Jehóva.
26 Þess vegna sögðum við: ‚Við þurfum að gera eitthvað. Reisum altari, ekki til að færa brennifórnir eða sláturfórnir
27 heldur til að vera vitni fyrir ykkur og fyrir okkur+ og afkomendur* okkar um að við munum þjóna Jehóva og færa honum brennifórnir okkar, sláturfórnir og samneytisfórnir.+ Þá geta synir ykkar ekki sagt við syni okkar í framtíðinni: „Þið hafið engan rétt til að þjóna Jehóva.“‘
28 Við hugsuðum sem svo: ‚Ef þeir segja þetta við okkur og afkomendur* okkar í framtíðinni svörum við: „Sjáið eftirmyndina af altari Jehóva sem forfeður okkar gerðu, ekki til að færa brennifórnir eða sláturfórnir heldur til að vera vitni fyrir ykkur og okkur.“‘
29 Það hvarflar ekki að okkur að gera uppreisn gegn Jehóva og hætta í dag að fylgja Jehóva+ með því að reisa annað altari en altari Jehóva Guðs okkar sem er frammi fyrir tjaldbúð hans til að færa brennifórnir, kornfórnir og sláturfórnir.“+
30 Þegar Pínehas prestur, höfðingjar safnaðarins og höfðingjar þúsunda* Ísraels sem voru með honum heyrðu hvað afkomendur Rúbens, Gaðs og Manasse sögðu voru þeir sáttir.+
31 Pínehas, sonur Eleasars prests, sagði þá við afkomendur Rúbens, Gaðs og Manasse: „Nú vitum við að Jehóva er meðal okkar því að þið hafið ekki svikið Jehóva. Þið hafið bjargað Ísraelsmönnum úr hendi Jehóva.“
32 Pínehas, sonur Eleasars prests, og höfðingjarnir sneru síðan frá Rúbenítum og Gaðítum í Gíleaðlandi, héldu heim til Kanaanslands og sögðu hinum Ísraelsmönnunum frá því hvað hafði gerst.
33 Ísraelsmenn voru sáttir við þetta. Þeir lofuðu Guð og minntust ekki á það framar að fara í stríð við Rúbeníta og Gaðíta og eyða landið þar sem þeir bjuggu.
34 Rúbenítar og Gaðítar gáfu síðan altarinu nafn* því að „það er vitni fyrir okkur um að Jehóva er hinn sanni Guð“.
Neðanmáls
^ Það er, austan megin.
^ Sjá orðaskýringar.
^ Orðrétt „til tjalda sinna“.
^ Orðrétt „til tjalda sinna“.
^ Orðrétt „til tjalda ykkar“.
^ Eða „ættflokka“.
^ Eða „var helgað eyðingu“. Sjá orðaskýringar.
^ Eða „ættflokka“.
^ Eða „Hinn guðdómlegi, Guð, Jehóva“.
^ Orðrétt „óttast“.
^ Orðrétt „kynslóðir“.
^ Orðrétt „kynslóðir“.
^ Eða „ættflokka“.
^ Eftir skýringunni að dæma var altarið líklega nefnt Vitni.