Verður líf okkar einhvern tíma eðlilegt aftur? Hvaða hjálp veitir Biblían okkur eftir heimsfaraldur?
„Við viljum öll endurheimta eðlilegt líf.“ – Angela Merkel, kanslari Þýskalands.
Þú ert kannski sammála því sem hún segir þar sem COVID-19 faraldurinn heldur áfram að hafa áhrif á fólk um allan heim. En hvað þýðir „eðlilegt“ líf? Hverju vonast fólk eftir?
Að lifa lífinu eins og það var fyrir faraldurinn. Suma langar til að njóta meira félagslífs, geta faðmast og heilsað með handabandi og hafa tækifæri til að ferðast. Þeir hugsa sem svo að það að „endurheimta eðlilegt líf“ feli í sér að fara á „veitingastaði, í leikhús og þess háttar,“ eins og Dr. Anthony Fauci a orðar það.
Bæta líf sitt. Sumir sjá fyrir sér tækifæri fyrir „nýjan veruleika“, að lifa betra lífi en þeir gerðu áður. Þeim finnst að vinnan taki of mikinn tíma og orku, þeir verði fyrir óréttlæti vegna kynþáttar eða félagslegrar stöðu, stöðugt fleiri þjáist vegna geðsjúkdóma, og að ástandið þurfi að breytast. Klaus Schwab, stofnandi Alþjóðaefnahagsráðsins, segir að „faraldurinn opni glufu til að endurskoða það hvernig við viljum að heimur okkar sé og til að gera síðan breytingar.“
Aðrir hafa orðið svo illa úti í faraldrinum að „eðlilegt“ líf virðist ekki lengur mögulegt. Margir hafa til dæmis misst vinnuna, heimili sitt, heilsuna og það sem er enn verra, ástvin.
Auðvitað getur enginn sagt fyrir um hvernig lífið verður nákvæmlega eftir að faraldrinum lýkur. (Prédikarinn 9:11) En Biblían getur hjálpað okkur að hafa raunhæfar væntingar varðandi framtíðina og að takast á við hvað sem kann að gerast. Og það sem meira er, Biblían bendir á framtíð sem við getum verið viss um að verði að veruleika – framtíð sem þú hefur ef til vill ekki gert ráð fyrir.
Rétt viðhorf til COVID-19 faraldursins
Fyrir löngu síðan sagði Biblían fyrir að útbreiddir sjúkdómar eða „drepsóttir“ myndu geisa á ,lokaskeiði þessarar heimsskipanar‘. (Lúkas 21:11; Matteus 24:3) Þegar við skoðum COVID-19 faraldurinn frá því sjónarhorni er hann hluti af mörgum atburðum sem biblíuspádómar hafa sagt fyrir um – þar á meðal stríðum, miklum jarðskjálftum og fæðuskorti.
Hvernig það hjálpar að vita þetta: Þótt ástandið varðandi faraldurinn lagist varar Biblían við því að við lifum á ,hættulegum og erfiðum tímum‘. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Vitneskjan um þetta getur hjálpað okkur að hafa raunsæjar væntingar um lífið á þessum krefjandi tímum.
Biblían hjálpar okkur að sjá þetta í réttu ljósi: Heimurinn glímir við sífellt meiri vandamál. En bráðlega mun hann taka miklum breytingum. Hvaða breytingum?
Framtíð sem gæti komið á óvart eftir heimsfaraldur
Biblían sagði ekki einungis fyrir um alvarleg vandamál sem blasa við okkur heldur líka betri tíma sem við getum átt von á bráðlega. Hún lýsir framtíð sem er langtum betri en stjórnir manna hafa getað vonast til að tryggja en er aðeins á valdi Guðs. „Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til.“ – Opinberunarbókin 21:4.
Jehóva b Guð lofar: „Ég geri alla hluti nýja.“ (Opinberunarbókin 21:5) Hann mun leysa vandamál heimsins, þar á meðal þau sem faraldurinn hefur aukið á. Hann lofar eftirfarandi:
Fullkomin líkamleg og andleg heilsa, hvorki veikindi né dauði verða framar til. – Jesaja 25:8; 33:24.
Vinna sem veitir lífsfyllingu en er ekki svo krefjandi að hún orsaki streitu og kulnun. – Jesaja 65:22, 23.
Velsæld fyrir alla þar sem enginn verður fátækur eða líður hungur. – Sálmur 72:12, 13; 145:16.
Tilfinningaleg sár gróa og við getum fengið að sjá látna ástvini reista upp til lífs á ný. – Jesaja 65:17; Postulasagan 24:15.
Hvernig það hjálpar að vita þetta: Biblían segir: „Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir líf okkar.“ (Hebreabréfið 6:19, neðanmáls) Slík von um betri framtíð veitir okkur öryggi. Hún getur hjálpað okkur að takast á við erfiðleika og ótta og veitt okkur hugarfrið.
En getum við treyst loforðum Biblíunnar? Sjá greinina „Biblían er áreiðanleg heimild“.
Biblíumeginreglur sem hjálpa okkur að takast á við breytt líf eftir faraldurinn
Munum að lífið er dýrmætt
Biblíuvers: ,Viska heldur manni á lífi.‘ – Prédikarinn 7:12.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Taktu viturlegar ákvarðanir til að minnka líkurnar á því að veikjast. Vertu meðvitaður um hætturnar þar sem þú býrð. Taktu mið af öryggisreglum, hversu útbreidd smit eru og hversu stór hluti íbúa er bólusettur.
Höldum áfram að vera varkár
Biblíuvers: „Vitur maður er varkár og forðast hið illa en heimskinginn er ógætinn og öruggur með sig.“ – Orðskviðirnir 14:16.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Haltu áfram að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að vernda heilsuna. Sérfræðingar gera ráð fyrir að kórónuveiran verði áfram á ferðinni um þó nokkurn tíma.
Tökum mark á áreiðanlegum upplýsingum
Biblíuvers: „Einfaldur maður trúir öllu en skynsamur maður íhugar hvert skref.“ – Orðskviðirnir 14:15.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Hugsaðu vandlega hvaða ráðum þú fylgir. Það skiptir máli hvað þú velur, þú gætir skaðað heilsuna með því að taka ákvarðanir byggðar á röngum upplýsingum.
Vertu jákvæður
Biblíuvers: „Segðu ekki: ,Hvers vegna var allt betra áður?‘ því að það er ekki skynsamlegt að spyrja þannig.“ – Prédikarinn 7:10.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Gerðu það besta úr aðstæðunum. Varastu fortíðarþrá, að miða við lífið fyrir faraldur og forðastu að láta hugann dvelja við glötuð tækifæri út af faraldrinum.
Sýndu öðrum virðingu
Biblíuvers: „Virðið alls konar menn.“ – 1. Pétursbréf 2:17.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Fólk bregst mismunandi við faraldrinum og afleiðingum hans. Virtu skoðanir þeirra en haltu þig við þær góðu ákvarðanir sem þú hefur tekið. Sýndu þeim tillitssemi sem eru óbólusettir, aldraðir eða með undirliggjandi sjúkdóma.
Sýndu þolinmæði
Biblíuvers: „Kærleikurinn er þolinmóður og góðviljaður.“ – 1. Korintubréf 13:4.
Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Sýndu þeim góðvild sem tjá kvíða sinn varðandi það að taka þátt í því sem áður var ekkert áhyggjuefni. Sýndu sjálfum þér líka þolinmæði þegar losnar um hömlur í faraldrinum.
Hvernig hjálpar Biblían fólki að takast á við faraldurinn
Vottar Jehóva fá huggun í loforðum Biblíunnar um bjarta framtíð og það hjálpar þeim að einblína ekki á faraldurinn. Þeir styðja hver annan með því að hlýða boði Biblíunnar um að safnast reglulega saman til tilbeiðslu. (Hebreabréfið 10:24, 25) Allir eru velkomnir að sækja samkomur Votta Jehóva. Meðan faraldurinn geisaði voru þær haldnar með fjarfundabúnaði.
Aðrir eru sammála því að það hafi verið gagnlegt að slást í hópinn með vottum Jehóva í tilbeiðslu þeirra á þessum erfiðu tímum. Til dæmis þáði kona sem var smituð af COVID-19 boð um að vera með á samkomu með fjarfundabúnaði. Samkomurnar hjálpuðu henni tilfinningalega þótt hún héldi áfram að vera veik. Hún sagði síðar: „Mér finnst ég vera hluti af þessari fjölskyldu líka. Það veitir mér hugarfrið að lesa í Biblíunni og hjálpar mér að hugsa um framtíðarvonina í stað þess að einblína á eigin vandamál. Takk fyrir að hjálpa mér að kynnast Guði sem ég hef leitað alla ævi.“
a Yfirmaður ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna.
b Jehóva er nafn Guðs samkvæmt Biblíunni. – Sálmur 83:18.