Bók sem þú getur treyst – 5. hluti
Grikkland og biblíusagan
Þetta er fimmta greinin af sjö í tímaritinu „Vaknið!“ þar sem fjallað er um þau sjö heimsveldi sem koma við sögu í Biblíunni. Markmiðið er að sýna fram á að Biblían sé trúverðug, að hún sé innblásin af Guði og að boðskapur hennar veiti von um að endir verði á þeim þjáningum sem stafa af óstjórn manna.
UNGUR Makedóníumaður, sem Alexander hét, gerði Grikkland * að stórveldi á fjórðu öld f.Kr. Grikkland varð þar með fimmta heimsveldi biblíusögunnar, og Makedóníumaðurinn var síðar kallaður Alexander mikli. Á undan Grikklandi voru heimsveldin Egyptaland, Assýría, Babýlon og Medía-Persía.
Eftir að Alexander féll frá hnignaði ríkinu og það liðaðist í sundur. En áhrifa Grikkja gætti áfram því að menning þeirra, tunga, trú og heimspeki lifði lengi eftir að heimsveldið var liðið undir lok.
Trúverðug saga
Í Biblíunni er þess ekki getið að nokkur spámaður Guðs hafi verið uppi meðan veldi Grikkja var sem mest, og engar innblásnar biblíubækur voru skrifaðir á þeim tíma. Grikkland kemur engu að síður við sögu í spádómum Biblíunnar. Og Grísku ritningarnar, oftast kallaðar Nýja testamentið, minnast oft á grísk áhrif. Þar eru einnig nefndar tíu hellenískar borgir á svæði sem kallað var Dekapólis en það er dregið af grísku orði sem merkir „tíu borgir“. Flestar þeirra voru í Ísrael. (Matteus 4:25; Markús 5:20; 7:31) Þetta svæði er nefnt nokkrum sinnum í Biblíunni. Veraldlegar söguheimildir, ásamt tilkomumiklum rústum leikhúsa, mustera, hringleikahúsa og baðhúsa, vitna greinilega um grísk áhrif á þessu svæði.
Í Biblíunni er oft minnst á gríska trú og menningu, einkum í Postulasögunni sem læknirinn Lúkas skrifaði. Lítum á örfá dæmi:
Í 17. kafla Postulasögunnar er sagt frá atburðum sem áttu sér stað þegar Páll heimsótti Aþenu árið 50. Þar segir meðal annars að borgin hafi verið „full af skurðgoðum“. (Postulasagan 17:16) Sögulegar heimildir staðfesta að mikið hafi verið af skurðgoðum og helgidómum í Aþenu og útborgum hennar.
Í Postulasögunni 17:21 segir: „Allir Aþeningar og aðkomumenn þar gáfu sér ekki tóm til annars fremur en að segja eða heyra einhver nýmæli.“ Af ritum Þúkýdídesar og Demosþenesar sést greinilega hve uppteknir Aþeningar voru af umræðum og kappræðum.
Í Biblíunni er tekið sérstaklega fram að „nokkrir heimspekingar, Epíkúringar og Stóumenn,“ hafi átt í „orðakasti“ við Pál. Þeir fóru jafnvel með hann á Aresarhæð til að fá nánari upplýsingar um það sem hann hafði fram að færa. (Postulasagan 17:18, 19) Aþena var víðkunn fyrir mikinn skara heimspekinga, þeirra á meðal Epíkúringa og Stóumenn.
Páll minnist á altari í Aþenu sem á hafi verið ritað: „Ókunnum guði.“ (Postulasagan 17:23) Hugsanlegt er að það hafi verið Epímenídes frá Krít sem reisti ölturu helguð ókunnum guði.
Í ræðunni, sem Páll flutti Aþeningum, vitnaði hann til þess að „sum skáld“ þeirra hafi sagt: „Við erum líka hans ættar.“ (Postulasagan 17:28) Við tökum eftir að hann eignar þetta ekki einu ákveðnu skáldi. Talið er að það hafi verið ljóðskáldin Aratos og Kleanþes sem hann átti við.
Það var því ærin ástæða fyrir því að fræðimaður skyldi segja: „Mér þykir frásagan af heimsókn Páls til Aþenu hafa á sér þann blæ að það sé sjónarvottur sem segir frá.“ Hið sama má segja um lýsingu Biblíunnar á því sem dreif á daga Páls í Efesus í Litlu-Asíu. Borgarbúar voru enn hallir undir grísk trúarbrögð
á fyrstu öld, ekki síst dýrkun hinnar heiðnu gyðju Artemisar.Musteri Artemisar var eitt af sjö undrum veraldar til forna og er nefnt nokkrum sinnum í Postulasögunni. Til dæmis segir frá því að boðun Páls í Efesus hafi reitt til reiði silfursmið sem Demetríus hét. Hann hafði drjúga atvinnu af því að smíða eftirlíkingar úr silfri af musteri Artemisar. „Páll þessi,“ sagði Demetríus reiðilega, „hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus heldur nær um gervalla Asíu. Hann segir að eigi séu það neinir guðir sem með höndum eru gerðir.“ (Postulasagan 19:23-28) Demetríus æsti síðan upp reiðan múginn sem hrópaði: „Mikil er Artemis Efesusmanna!“
Enn þann dag í dag er hægt að skoða rústir Efesus og staðinn þar sem musteri Artemisar stóð. Og fornar áletranir í Efesus staðfesta að skurðgoð hafi verið smíðuð til heiðurs gyðjunni og silfursmiðir í borginni hafi átt með sér samtök.
Áreiðanlegir spádómar
Hér um bil um 200 árum fyrir daga Alexanders mikla skrifaði Daníel, spámaður Jehóva Guðs, eftirfarandi um væntanleg heimsyfirráð ríkis nokkurs: „Birtist geithafur úr vestri og barst hann yfir jörðina alla án þess að snerta hana. Sá hafur hafði horn mikið milli augna. Hann stefndi á tvíhyrnda hrútinn . . . og rann á hann af miklum ofsa . . . Hann stangaði hrútinn og braut bæði horn hans en hrúturinn megnaði ekki að veita honum viðnám. Hann slengdi honum til jarðar og tróð hann undir . . . Geithafrinum óx mjög ásmegin en er hann mátti sín sem mest brotnaði hornið mikla. Í stað þess uxu fram fjögur stór horn mót höfuðáttunum fjórum.“ – Daníel 8:5-8.
Um hvaða ríki er verið að tala? Daníel svarar því og segir: „Tvíhyrndi hrúturinn, sem þú sást, merkir konungana í Medíu og Persíu, og hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn.“ – Daníel 8:20-22, Biblían 1981.
Hugsaðu þér. Meðan Babýlon var enn þá heimsveldi var því spáð í Biblíunni að næsta heimsveldi yrði Medía-Persía og Grikkland síðan. Og eins og fram kemur í biblíutextanum átti „hornið mikla“ – það er að segja Alexander – að brotna og fjögur önnur að vaxa fram. Þetta átti að gerast meðan Alexander „mátti sín sem mest“ og ríkið átti ekki að ganga til afkomenda hans. – Daníel 11:4.
Spádómurinn rættist fullkomlega. Alexander komst til valda árið 336 f.Kr. og tæplega sjö árum síðar var hann búinn að vinna hinn volduga Daríus þriðja Persakonung. Alexander hélt síðan áfram að færa út kvíarnar uns hann dó langt um aldur fram árið 323 f.Kr., þá eins 32 ára. Enginn afkomandi Alexanders tók við ríkinu af honum heldur skiptist það milli fjögurra helstu hershöfðingja hans sem „lýstu sig konunga“, að því er segir í bókinni The Hellenistic Age. Þeir hétu Lýsimakos, Kassander, Selevkos og Ptólemeos.
Esekíel 26:3-5, 12; 27:32-36; Sakaría 9:3, 4) Esekíel skrifaði jafnvel að steinunum og leirnum úr borginni yrði fleygt „út í hafsauga“. Rættust spár þeirra?
Alexander uppfyllti ýmsa aðra biblíuspádóma með herferðum sínum. Lítum á dæmi. Spámennirnir Esekíel og Sakaría, sem voru uppi á sjöundu og sjöttu öld f.Kr., sögðu fyrir að siglingaborginni Týrus yrði eytt. (Hersveitir Alexanders settust um Týrus árið 332 f.Kr. Sá hluti borgarinnar, sem stóð á meginlandinu, hafði verið lagður í rúst og úr rústahaugunum lét Alexander gera grjótgarð út í eyborgina. Hernaðaráætlunin gekk eftir og Týrus féll. „Spádómarnir um Týrus hafa ræst í smáatriðum,“ skrifaði landkönnuður sem fór um svæðið á 19. öld. *
Loforð sem þú getur treyst
Hersigrar Alexanders urðu ekki til þess að skapa frið og öryggi í heiminum. „Í meginatriðum breyttust aðstæður almennings sáralítið,“ sagði fræðimaður sem skrifaði um stjórnartíð Forn-Grikkja. Þetta hefur margendurtekið sig í sögu mannkyns og staðfestir enn og aftur að „einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu“, eins og sagt er í Biblíunni. – Prédikarinn 8:9.
Óstjórn manna fær ekki að halda áfram um ókominn aldur því að Guð hefur sett á laggirnar stjórn sem skarar langt fram úr hverju því stjórnarfari sem menn hafa upphugsað. Sú stjórn er kölluð ríki Guðs og á að ryðja úr vegi öllum stjórnum manna. Þegnar hennar fá að búa við varanlegan frið og öryggi. – Jesaja 25:6; 65:21, 22; Daníel 2:35, 44; Opinberunarbókin 11:15.
Konungur Guðsríkis er enginn annar en Jesús Kristur. Hann er ekki eins og valdagráðugir menn sem stendur á sama um velferð þegnanna heldur elskar hann Guð og mennina. Sálmaskáldið sagði um hann: „Hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp, og lítilmagnanum sem enginn hjálpar. Hann miskunnar sig yfir bágstadda og snauða og bjargar lífi hinna fátæku, frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá.“ – Sálmur 72:12-14.
Langar þig til að búa undir stjórn valdhafa eins og hér er lýst? Ef svo er ættirðu að lesa um sjötta heimsveldið sem kemur við sögu í Biblíunni, það er að segja Rómaveldi. Það réð lögum og lofum á þeim tíma þegar frelsarinn, sem nefndur er í sálminum, kom fram og setti mark sitt á mannkynssöguna. Við hvetjum þig til að lesa sjöttu greinina í þessari greinaröð en hún birtist í næsta tölublaði Vaknið!
^ Þegar talað er um Grikkland í þessari grein er átt við Forn-Grikkland fyrir daga Krists en ekki landamæraskipan nútímans.
^ Nebúkadresar, konungur í Babýlon, vann borgina rétt eins og Esekíel spáði. (Esekíel 26:7) Hún var síðan endurbyggð. Það var sú borg sem Alexander eyddi og þar með rættust nákvæmlega orð spámannanna.