Vissir þú?
Hversu mikilvægu hlutverki gegndi tónlist í Ísrael til forna?
TÓNLIST var mjög áberandi í menningu Ísraelsþjóðarinnar til forna. Í Biblíunni er oft minnst á tónlistarflutning og söng. Einn tíundi hluti Ritninganna er reyndar söngvar, eins og Sálmarnir, Ljóðaljóðin og Harmljóðin. Bókin Music in Biblical Life segir að Biblían „máli lifandi mynd af samfélagi þar sem tónlist var samofin mörgum viðburðum“.
Tónlist í daglegu lífi. Ísraelsmenn léku tónlist til að tjá tilfinningar sínar. (Jes. 30:29) Konur spiluðu á tambúrínur og dönsuðu og sungu gleðisöngva við krýningar, hátíðir og þegar hermenn sigruðu í stríði. (Dóm. 11:34; 1. Sam. 18:6, 7; 1. Kon. 1:39, 40) Ísraelsmenn sungu tilfinningaþrungin sorgarljóð þegar þeir syrgðu. (2. Kron. 35:25) Það er engin spurning að „Hebrear voru einstaklega tónelskir,“ segir í bókinni McClintock and Strong’s Cyclopedia.
Tónlist við konungshirðina. Konungar í Ísrael höfðu yndi af tónlist. Sál konungur fékk Davíð til að spila á hörpu við hirðina. (1. Sam. 16:18, 23) Síðar þegar Davíð varð sjálfur konungur fann hann upp hljóðfæri, samdi fallega söngva og kom á fót hljómsveit sem spilaði í musteri Jehóva. (2. Kron. 7:6; Amos 6:5) Salómon konungur hafði söngvara og söngkonur við hirðina. – Préd. 2:8.
Tónlist við tilbeiðsluna. Það sem mestu máli skiptir er að Ísraelsmenn notuðu tónlist í tilbeiðslunni á Jehóva. Fjögur þúsund hljóðfæraleikarar léku í musterinu í Jerúsalem. (1. Kron. 23:5) Þeir léku á málmgjöll, lúðra, hörpur og önnur strengjahljóðfæri. (2. Kron. 5:12) En þessir færu tónlistarmenn voru ekki þeir einu sem notuðu tónlist við tilbeiðsluna. Margir Ísraelsmenn sungu uppgönguljóð þegar þeir ferðuðust á árlegar hátíðir í Jerúsalem. (Sálm. 120–134) Og samkvæmt ritum Gyðinga sungu Ísraelsmenn hallelsálma a við páskamáltíðina.
Tónlist er enn þá mjög þýðingarmikil fyrir þjóna Guðs. (Jak. 5:13) Söngur er hluti af tilbeiðslu okkar. (Ef. 5:19) Tónlist sameinar þjóna Jehóva. (Kól. 3:16) Og hún styrkir okkur þegar við tökumst á við erfiðleika. (Post. 16:25) Tónlist gefur okkur sérstakt tækifæri til að sýna trú okkar á Jehóva og kærleika til hans.
a Gyðingar tala um Sálma 113 til 118 sem hallelsálma. Þeir voru sungnir til að lofa Jehóva.