NÁMSGREIN 45
SÖNGUR 138 Gráar hærur eru heiðurskóróna
Lærum af kveðjuorðum trúfastra manna
„Er ekki visku að finna hjá öldruðum og eykst ekki skilningur með árunum?“ – JOB. 12:12.
Í HNOTSKURN
Jehóva Guð lofar okkur blessun núna og eilífu lífi í framtíðinni ef við hlýðum honum.
1. Hvers vegna geta hinir öldruðu kennt okkur margt?
VIÐ þurfum öll aðstoð til að taka góðar ákvarðanir í lífinu. Bæði öldungar í söfnuðinum og aðrir þroskaðir bræður og systur geta veitt okkur góð ráð. Þótt þau séu miklu eldri en við ættum við ekki að gera ráð fyrir að leiðbeiningar þeirra séu úreltar. Jehóva vill að við lærum af þeim sem eldri eru. Þeir eru lífsreyndari en við og hafa dýpri skilning og meiri visku. – Job. 12:12.
2. Hvað lærum við í þessari námsgrein?
2 Jehóva hvatti fólk sitt og leiðbeindi á biblíutímanum fyrir milligöngu trúfastra aldraðra þjóna sinna. Móse, Davíð og Jóhannes postuli eru dæmi um það. Þeir voru uppi á ólíkum tímum og bjuggu við mjög ólíkar aðstæður. Þegar dró að ævilokum þeirra gáfu þeir þeim sem yngri voru mikilvæg ráð. Þessir trúföstu eldri menn lögðu allir áherslu á mikilvægi þess að vera hlýðinn Guði. Jehóva lét skrá viskuorð þeirra í Biblíuna svo að við gætum lært af þeim. Hvort sem við erum ung eða gömul getum við öll haft gagn af því að hugleiða ráð þeirra. (Rómv. 15:4; 2. Tím. 3:16) Í þessari námsgrein skoðum við kveðjuorð þessara þriggja eldri manna og það sem við lærum af þeim.
‚JEHÓVA GEFUR ÞÉR LANGA ÆVI‘
3. Hvaða mismunandi hlutverkum gegndi Móse í þjónustu Jehóva?
3 Móse helgaði allt líf sitt þjónustu Jehóva. Hann var spámaður, dómari, leiðtogi og söguritari. Hann bjó yfir mikilli reynslu. Hann leiddi Ísraelsþjóðina úr ánauð í Egyptalandi og sá með eigin augum mörg kraftaverk Jehóva. Jehóva fól honum að skrifa fyrstu fimm bækur Biblíunnar, Sálm 90 og hugsanlega Sálm 91. Auk þess skrifaði hann líklega Jobsbók.
4. Hverja hvatti Móse og af hverju?
4 Móse var 120 ára og átti stutt eftir ólifað þegar hann kallaði saman alla Ísraelsmenn til að minna þá á það sem Jehóva hafði gert fyrir þá. Mörgum árum áður höfðu sumir Ísraelsmenn séð kraftaverkin sem Jehóva vann og hvernig hann refsaði Egyptum. (2. Mós. 7:3, 4) Ísraelsmenn gengu í gegnum Rauðahafið þegar Jehóva klauf það og sáu þegar Jehóva eyddi faraó og her hans. (2. Mós. 14:29–31) Í óbyggðunum verndaði Jehóva þá og annaðist. (5. Mós. 8:3, 4) Og nú stóð þjóðin á þröskuldi fyrirheitna landsins og Móse vildi nýta tækifærið til að hvetja hana. a
5. Hvernig voru kveðjuorð Móse í 5. Mósebók 30:19, 20 Ísraelsmönnum hvatning?
5 Hvað sagði Móse? (Lestu 5. Mósebók 30:19, 20.) Móse minnti Ísraelsþjóðina á að hún ætti möguleika á bjartri framtíð. Með blessun Jehóva gætu Ísraelsmenn átt langa ævi í landinu sem hann hafði heitið þeim. Þetta var gott og gjöfult land. Móse dró upp mynd af því og sagði það vera „land með stórum og fögrum borgum sem þú reistir ekki, húsum fullum af alls kyns góðum hlutum sem þú vannst ekki fyrir, vatnsþróm sem þú hjóst ekki í klöpp og víngörðum og ólívutrjám sem þú gróðursettir ekki“. – 5. Mós. 6:10, 11.
6. Hvers vegna leyfði Guð öðrum þjóðum að sigra Ísrael?
6 Móse sagði Ísraelsmönnum að þeir þyrftu að hlýða boðorðum Jehóva til að fá að halda áfram að búa í þessu frjósama landi. Hann hvatti þá til að ‚velja lífið‘ með því að hlusta á Jehóva og ‚halda sig fast við hann‘. En Ísraelsmenn höfnuðu Jehóva. Fyrir vikið leyfði hann Assýringum og síðar Babýloníumönnum að sigra þá og fara með þá í útlegð. – 2. Kon. 17:6–8, 13, 14; 2. Kron. 36:15–17, 20.
7. Hvað lærum við af kveðjuorðum Móse? (Sjá einnig mynd.)
7 Hver er lærdómurinn? Hlýðni bjargar lífi okkar. Við erum í svipaðri stöðu og Ísraelsmenn til forna því að nýi heimurinn er rétt fram undan þar sem jörðinni verður breytt í paradís. (Jes. 35:1; Lúk. 23:43) Djöfullinn og illir andar gera okkur ekki lengur lífið leitt. (Opinb. 20:2, 3) Fölsk trúarbrögð afvegaleiða ekki lengur fólk. (Opinb. 17:16) Og stjórnir manna kúga ekki lengur þegna sína. (Opinb. 19:19, 20) Í paradís verður ekkert pláss fyrir uppreisnarseggi. (Sálm. 37:10, 11) Hvert sem litið er hlýðir fólk réttlátum lögum Jehóva og það stuðlar að einingu og friði. Allir elska og treysta hver öðrum. (Jes. 11:9) Og það sem meira er fá þeir sem hlýða Jehóva að lifa að eilífu í paradís á jörð. – Sálm. 37:29; Jóh. 3:16.
8. Hvernig hjálpaði loforðið um eilíft líf trúboða nokkrum? (Júdasarbréfið 20, 21)
8 Ef við höfum loforð Guðs um eilíft líf ofarlega í huga er auðveldara fyrir okkur að hlýða honum sama hvaða erfiðleikar verða á vegi okkar. (Lestu Júdasarbréfið 20, 21.) Þetta loforð gefur okkur líka kraft til að sigrast á veikleikum okkar. Trúboði í Afríku til margra ára barðist við þrálátan veikleika. Hann sagði: „Þegar ég gerði mér grein fyrir að von minni um eilíft líf var ógnað var ég enn staðráðnari í að sigrast á vandamálinu með því að biðja Jehóva stöðugt um hjálp. Og mér tókst það að lokum með hans hjálp.“
‚ÞÉR VEGNAR VEL‘
9. Hvaða erfiðleika glímdi Davíð við á lífsleiðinni?
9 Davíð var mikill konungur. Hann var líka tónlistarmaður, ljóðskáld, stríðsmaður og spámaður. En hann glímdi við ýmsa erfiðleika á lífsleiðinni. Um árabil var hann á flótta undan hinum afbrýðisama Sál konungi. Og þegar hann var sjálfur konungur þurfti hann aftur að leggja á flótta af því að Absalon sonur hans reyndi að velta honum úr sessi. En Davíð var trúfastur Guði alla ævi þrátt fyrir erfiðleika og alvarleg mistök. Jehóva lýsir honum sem ‚manni eftir sínu hjarta‘. Við ættum að hlusta á ráð Davíðs. – Post. 13:22; 1. Kon. 15:5.
10. Af hverju gaf Davíð Salómon syni sínum og arftaka ráð?
10 Davíð gaf syni sínum og arftaka ráð. Jehóva hafði valið þennan unga mann til að reisa musteri þar sem fólk gat tilbeðið hann. (1. Kron. 22:5) Þetta var ekki auðvelt verkefni. Hvað sagði Davíð við hann?
11. Hvaða ráð gaf Davíð Salómon í 1. Konungabók 2:2, 3 og hvernig gekk Salómon að fylgja þeim? (Sjá einnig mynd.)
11 Hvað sagði Davíð? (Lestu 1. Konungabók 2:2, 3.) Davíð sagði syni sínum að honum myndi vegna vel ef hann hlýddi Jehóva. Og um margra ára skeið naut Salómon mikillar velgengni. (1. Kron. 29:23–25) Hann reisti stórfenglegt musteri og skrifaði nokkrar biblíubækur og auk þess er vitnað í orð hans í öðrum bókum Biblíunnar. Hann var frægur fyrir visku og ríkidæmi. (1. Kon. 4:34) En velgengni Salómons var undir því komin að hann hlýddi Jehóva Guði eins og Davíð hafði útskýrt fyrir honum. Því miður fór hann að dýrka aðra Guði síðar á ævinni. Jehóva tók blessun sína frá honum og hann glataði þar með viskunni til að ríkja yfir þjóðinni af sanngirni og réttlæti. – 1. Kon. 11:9, 10; 12:4.
12. Hvað lærum við af orðum Davíðs?
12 Hver er lærdómurinn? Hlýðni hefur velgengni í för með sér. (Sálm. 1:1–3) Jehóva hefur að sjálfsögðu ekki lofað að gefa okkur ríkidæmi og upphefð eins og Salómon fékk. En ef við hlýðum honum gefur hann okkur visku til að taka góðar ákvarðanir. (Orðskv. 2:6, 7; Jak. 1:5) Meginreglur hans geta hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi vinnu, menntun, fjármál og afþreyingu. Viska hans er okkur til verndar. (Orðskv. 2:10, 11) Hún hjálpar okkur að styrkja sambandið við góða vini og við fáum leiðsögn sem stuðlar að hamingjuríku fjölskyldulífi.
13. Hvernig fann Carmen réttu leiðina í lífinu?
13 Carmen, sem býr í Mósambík, áleit æðri menntun vera lykilinn að velgengni í lífinu. Hún fór í háskóla og lagði stund á arkitektúr. „Ég elskaði námið,“ segir hún. „En það kostaði mikinn tíma og orku. Ég var í skólanum frá hálf átta á morgnanna til klukkan sex á kvöldin. Það var erfitt að komast á samkomur og sambandið við Jehóva dalaði. Ég vissi innst inni að ég var að reyna að þjóna tveim herrum.“ Hún lagði málið fyrir Jehóva í bæn og leitaði ráða í ritunum okkar. Hún bætir við: „Eftir að hafa fengið góð ráð hjá öldungunum og mömmu ákvað ég að hætta námi og þjóna Jehóva í fullu starfi. Þetta var besta ákvörðunin sem ég hefði getað tekið og ég sé ekki eftir neinu.“
14. Hver var kjarninn í því sem bæði Móse og Davíð sögðu?
14 Móse og Davíð elskuðu Jehóva og skildu hversu mikilvægt það er að hlýða honum. Þeir hvöttu þá sem hlustuðu á kveðjuorð þeirra að fylgja fordæmi sínu og halda sig fast við Jehóva. Þeir vöruðu líka báðir við því að yfirgefa Jehóva og glata þannig velþóknun hans og blessuninni sem hann hafði lofað þeim. Ráð þeirra eru enn í fullu gildi. Öldum síðar útskýrði annar þjónn Jehóva hversu mikilvægt er að varðveita trúfesti við Guð.
‚EKKERT GLEÐUR MEIRA‘
15. Hvað upplifði Jóhannes postuli á lífsleiðinni?
15 Jóhannes var kær vinur Jesú og postuli. (Matt. 10:2; Jóh. 19:26) Jóhannes varði miklum tíma með Jesú þegar Jesús þjónaði hér á jörð. Jóhannes sá hann vinna kraftaverk og var traustur vinur þegar á móti blés. Hann sá Jesú tekinn af lífi og Jesús birtist honum eftir upprisu sína. Hann sá kristna söfnuðinn vaxa á fyrstu öld og fagnaðarboðskapinn ‚boðaðan meðal allra manna‘. – Kól. 1:23.
16. Hverjir hafa haft gagn af bréfum Jóhannesar?
16 Þegar leið að ævilokum Jóhannesar fól Jehóva honum að skrifa hluta af innblásnu orði sínu. Hann skrifaði hina mögnuðu „opinberun Jesú Krists“. (Opinb. 1:1) Hann skrifaði guðspjallið sem ber nafn hans og einnig þrjú innblásin bréf. Hann stílaði þriðja bréf sitt á trúfastan mann sem hét Gajus og var honum mjög kær. (3. Jóh. 1) Á þessum tíma hefur hann örugglega litið á marga sem andleg börn sín. Það sem þessi trúfasti aldraði maður skrifaði hefur verið öllum fylgjendum Jesú hvatning allt fram á okkar daga.
17. Hvað veitir mikla gleði samkvæmt 3. Jóhannesarbréfi 4?
17 Hvað benti Jóhannes á? (Lestu 3. Jóhannesarbréf 4.) Jóhannes benti á gleðina sem fylgir því að hlýða Guði. Um það leyti sem Jóhannes skrifaði þriðja bréfið dreifðu sumir falskenningum og ollu sundrungu. Aðrir ‚gengu á vegi sannleikans‘. Þeir hlýddu Jehóva og ‚lifðu eftir boðorðum hans‘. (2. Jóh. 4, 6) Þessir trúföstu þjónar Guðs glöddu ekki aðeins Jóhannes heldur líka Jehóva. – Orðskv. 27:11.
18. Hvað getum við lært af því sem Jóhannes sagði?
18 Hver er lærdómurinn? Trúfesti hefur gleði í för með sér. (1. Jóh. 5:3) Það gleður okkur að geta glatt Jehóva. Hann er glaður þegar við stöndumst freistingar heimsins og hlýðum sannleikanum. (Orðskv. 23:15) Englar á himnum gleðjast líka. (Lúk. 15:10) Það gleður okkur að fylgjast með þegar bræður og systur eru trúföst þrátt fyrir prófraunir og freistingar. (2. Þess. 1:4) Þegar heimur Satans líður undir lok verðum við ánægð að hafa verið trúföst Jehóva.
19. Hvað segir systir að nafni Rachel um það að kenna sannleikann? (Sjá einnig mynd.)
19 Það veitir einstaka gleði að kenna öðrum sannleikann. Rachel, sem býr í Dóminíska Lýðveldinu, finnst mikill heiður að fá að segja öðrum frá hinum dásamlega Guði sem við þjónum. Hún hefur hjálpað nokkrum að kynnast Jehóva. Hún segir: „Það veitir ólýsanlega gleði að sjá aðra byrja að elska Jehóva, breyta lífinu til að þóknast honum og gera hann að kjölfestu sinni. Þessi gleði vegur upp á móti öllu sem ég hef fórnað og lagt á mig til að kenna þeim.“
LÆRÐU AF KVEÐJUORÐUM TRÚFASTRA MANNA
20. Hvað eigum við sameiginlegt með Móse, Davíð og Jóhannesi?
20 Móse, Davíð og Jóhannes voru uppi fyrir löngu og aðstæður þeirra voru ólíkar okkar. Við eigum samt margt sameiginlegt með þeim. Þeir þjónuðu líka hinum sanna Guði, báðu til hans, treystu honum og leituðu leiðsagnar hans. Og eins og þeir treystum við því að Jehóva blessi þá sem hlýða honum.
21. Hvaða blessun bíður þeirra sem hlusta á ráð trúfastra eldri manna eins og Móse, Davíðs og Jóhannesar?
21 Við skulum hlýða Jehóva með því að hlusta á kveðjuorð þessara eldri manna. Þá vegnar okkur vel í öllu sem við gerum og Jehóva gefur okkur „líf og langa ævi“. Við hljótum eilíft líf. (5. Mós. 30:20) Við munum gleðja kærleiksríkan föður okkar á himnum en hann uppfyllir loforð sín með stórkostlegri hætti en við getum ímyndað okkur. – Ef. 3:20.
SÖNGUR 129 Reynumst þolgóð
a Langflestir Ísraelsmenn sem sáu kraftaverk Jehóva við Rauðahafið fengu ekki að fara inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 14:22, 23) Jehóva sagði að allir tvítugir og eldri sem voru skrásettir myndu deyja í óbyggðunum. (4. Mós. 14:29) En Jósúa, Kaleb og margir af yngri kynslóðinni og af ættkvísl Leví gengu yfir ána Jórdan og inn í Kanaansland eins og Jehóva hafði lofað. – 5. Mós. 1:24–40.
b MYND: Til vinstri: Davíð gefur Salómon syni sínum ráð áður en hann deyr. Til hægri: Nemendur í brautryðjendaskóla njóta góðs af viskunni í orði Guðs.