Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Láttu ekkert verða til þess að þú fjarlægist Jehóva

Láttu ekkert verða til þess að þú fjarlægist Jehóva

„Kjósið þá í dag hverjum þið viljið þjóna.“ – JÓS. 24:15.

1-3. (a) Hvers vegna er Jósúa gott dæmi um mann sem tók rétta ákvörðun í lífinu? (b) Hvað ættum við að hafa hugfast þegar við tökum ákvarðanir?

 VIÐ ráðum miklu um það hvaða stefnu við tökum í lífinu. Það er því mikilvægt að taka skynsamlegar ákvarðanir. Hugsum okkur mann sem kemur að vegamótum á göngu sinni. Hvora leiðina á hann að velja? Ef hann hefur skýrt í huga hvert hann ætlar velur hann eflaust þá leið sem liggur í áttina þangað frekar en hina sem stefnir í aðra átt.

2 Í Biblíunni segir frá fjölda fólks sem stóð í svipuðum sporum og hér er lýst. Kain þurfti til dæmis að velja milli þess að gefa reiðinni lausan tauminn eða hafa hemil á henni. (1. Mós. 4:6, 7) Jósúa þurfti að velja milli þess að þjóna hinum sanna Guði og tilbiðja falsguði. (Jós. 24:15) Hann hafði það markmið að halda nánum tengslum við Jehóva og valdi þess vegna leiðina sem lá í þá átt. Kain hafði ekki sett sér neitt slíkt markmið þannig að hann valdi þá leið sem gerði hann viðskila við Jehóva.

3 Stundum stöndum við á vegamótum í lífinu og þurfum að velja hvaða leið við förum. Ef það gerist skaltu hafa í huga að hvaða marki þú stefnir – að heiðra Jehóva í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur og forðast allt sem gæti orðið til þess að þú fjarlægðist hann. (Lestu Hebreabréfið 3:12.) Í þessari grein og þeirri næstu lítum við á sjö svið í lífinu þar sem við þurfum að gæta þess að taka réttar ákvarðanir svo að við fjarlægjumst ekki Jehóva.

ATVINNA

4. Af hverju er mikilvægt að vinna fyrir sér og sínum?

4 Þjónum Guðs ber að sjá fyrir sér og sínum. Í Biblíunni er bent á að sá sem vilji ekki sjá fyrir skylduliði sínu sé verri en vantrúaður. (2. Þess. 3:10; 1. Tím. 5:8) Það er því mikilvægt að vinna fyrir sér. Ef við tökum ekki réttar ákvarðanir á þessu sviði er hins vegar hætta á að vinnan geti valdið því að við fjarlægjumst Jehóva. Hvernig þá?

5. Hvað er mikilvægt að hugsa um áður en maður ræður sig í vinnu?

5 Setjum sem svo að þú sért að leita þér að vinnu. Ef atvinnuleysi er mikið gæti verið freistandi að þiggja fyrsta starfið sem býðst – og þá hvaða starf sem er. En hvað nú ef vinnan stangast á við meginreglur Biblíunnar? Hvað ef vinnutíminn eða ferðir til og frá vinnu myndu torvelda þér að þjóna Guði eða kosta langar fjarverur frá fjölskyldunni? Ættirðu samt að þiggja starfið og hugsa sem svo að óhentug vinna sé þó betri en engin? Hafðu hugfast að þú getur fjarlægst Jehóva ef þú tekur ranga ákvörðun. (Hebr. 2:1) Hvernig geturðu tekið skynsamlegar ákvarðanir, hvort sem þú ert að leita að vinnu eða ert að hugsa um að skipta um vinnu?

6, 7. (a) Hvaða markmið getur fólk haft með vinnu? (b) Hvaða markmið styrkir tengslin við Jehóva og hvers vegna?

6 Eins og áður er nefnt skaltu hafa markmiðið í huga. Spyrðu þig hvers vegna þú viljir fá vinnu. Jehóva mun blessa þig ef þú lítur á vinnu sem leið til að ná ákveðnu marki – því markmiði að framfleyta þér og fjölskyldunni þannig að þið getið þjónað Jehóva. (Matt. 6:33) Jehóva lætur ekki slá sig út af laginu þó að þú missir vinnuna eða það kreppi að í efnahagslífinu. (Jes. 59:1) Hann „veit . . . hvernig hann á að hrífa hina guðhræddu úr freistingu“ og prófraunum. – 2. Pét. 2:9.

7 En setjum sem svo að markmiðið hjá þér sé fyrst og fremst að eignast sem mest. Kannski á þér eftir að takast það. En mundu að slík „velgengni“ kostar sitt – meira en þú hefur efni á. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10.) Ef þú leggur mest upp úr peningum og starfsframa áttu bara eftir að fjarlægjast Jehóva.

8, 9. Hvaða spurninga ættu foreldrar að spyrja sig í sambandi við veraldleg störf sín? Skýrðu svarið.

8 Ef þú ert foreldri ættirðu að hugleiða hvaða fordæmi þú setur börnum þínum. Hvað sjá þau? Hvort læturðu ganga fyrir – vinnuna eða vináttusambandið við Jehóva? Er ekki hætta á að þau líki eftir miður góðu fordæmi þínu ef þú leggur mest upp úr stöðu, virðingu og peningum? Gætu þau misst virðingu fyrir þér sem foreldri? Unglingsstúlka í söfnuðinum segir: „Pabbi hefur verið upptekinn af vinnunni frá því að ég fór að muna eftir mér. Í fyrstu virtist hann leggja svona mikið á sig af því að hann vildi að fjölskyldan hefði það sem best. Hann vildi sjá vel fyrir okkur. En þetta hefur breyst á síðustu árum. Hann vinnur og vinnur og kaupir síðan munaðarvörur en ekki bara nauðsynjar. Fyrir vikið erum við þekkt sem ríka fjölskyldan en ekki fyrir að hvetja aðra til að þjóna Jehóva. Ég væri miklu ánægðari ef pabbi hjálpaði okkur að eiga náið samband við Jehóva en ynni ekki svona mikið.“

9 Foreldrar, leggið ekki svo mikið upp úr vinnunni að þið fjarlægist Jehóva. Sýnið börnunum með fordæmi ykkar að þið séuð sannfærð um að mestu auðæfin, sem við getum átt, séu andleg en ekki efnisleg. – Matt. 4:4.

10. Hvað ætti ungt fólk að íhuga þegar það velur sér starfsvettvang?

10 Hvernig getur ungt fólk, sem er að hugleiða hvað það ætli að leggja fyrir sig í lífinu, valið rétt? Eins og fram hefur komið þarftu að vita að hverju þú stefnir. Ef þú ert að hugsa um að fá ákveðna starfsmenntun skaltu hugleiða hvort þetta starf eigi eftir að hjálpa þér að þjóna Jehóva sem best eða gera þig fjarlægan honum. (2. Tím. 4:10) Margir í heiminum halda að lífshamingjan ráðist af digrum bankareikningum og verðbréfaeign. Langar þig til að lifa eins og þeir? Eða velurðu að treysta á Jehóva eins og Davíð sem orti: „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálm. 37:25) Mundu að önnur leiðin liggur burt frá Jehóva en hin til þess besta sem lífið hefur upp á að bjóða. (Lestu Orðskviðina 10:22; Malakí 3:10.) Hvora leiðina ætlar þú að velja? *

AFÞREYING

11. Hvað kemur fram í Biblíunni varðandi afþreyingu en hvað þarf að hafa í huga?

11 Í Biblíunni er ekki mælt gegn afþreyingu og skemmtun og ekki heldur talað um það sem tímasóun. „Líkamleg æfing er nytsamleg í sumu,“ skrifaði Páll í bréfi til Tímóteusar. (1. Tím. 4:8) Í Biblíunni er jafnvel talað um að það hafi sinn tíma að hlæja og dansa, og fólk er hvatt til að fá hæfilega hvíld. (Préd. 3:4; 4:6) En ef þú gætir ekki að þér getur skemmtun og afþreying gert þig fjarlægan Jehóva. Hvernig þá? Hætturnar eru einkum tvær: hvers eðlis afþreyingin er og hve mikill tími fer í hana.

Afþreying af réttu tagi og í réttu hófi er endurnærandi.

12. Hvaða spurninga ættirðu að spyrja þegar þú velur þér skemmtiefni og afþreyingu?

12 Lítum fyrst á eðli afþreyingarinnar. Það er hægt að gera margt sér til skemmtunar sem er bæði heilnæmt og endurnærandi. Stór hluti skemmtiefnis í heiminum snýst hins vegar um það sem Guð hatar, svo sem ofbeldi, dulspeki og siðlaust kynlíf. Þess vegna þarftu að vera vandfýsinn þegar þú velur þér afþreyingar- og skemmtiefni. Hvaða áhrif ætli það hafi á þig? Ýtir það undir ofbeldishneigð, harða samkeppni eða þjóðernishyggju? (Orðskv. 3:31) Er það dýrt? Myndu aðrir hneykslast ef þeir vissu að þú stundaðir afþreyingu af þessu tagi? (Rómv. 14:21) Hvers konar félagsskapur fylgir henni? (Orðskv. 13:20) Vekur hún með þér löngun til að gera eitthvað rangt? – Jak. 1:14, 15.

13, 14. Af hverju þarftu að skoða hve miklum tíma þú eyðir í afþreyingu?

13 Og þá er það tíminn sem fer í afþreyingu. Notarðu svo mikinn tíma til tómstundaiðju að þú mátt varla vera að því að boða fagnaðarerindið og sækja samkomur? Ef þú eyðir óhóflegum tíma í afþreyingu kemstu að raun um að hún er ekki eins endurnærandi og þú bjóst við. Þeir sem halda afþreyingu í réttu hófi njóta hennar hins vegar eins og best verður á kosið. Hvernig stendur á því? Þeir vita að þeir hafa látið mikilvægu málin ganga fyrir þannig að þeir fá ekki samviskubit þegar þeir gefa sér stund til að slaka á. – Lestu Filippíbréfið 1:10, 11.

14 Það virðist kannski skemmtilegt að nota mikinn tíma í afþreyingu en það getur hins vegar veikt sambandið við Jehóva. Tvítug systir, sem heitir Kim, komst að raun um það. „Ég fór í hvert einasta partí,“ segir hún. „Það var alltaf eitthvað um að vera um helgar – á föstudögum, laugardögum og sunnudögum. En ég áttaði mig á að það er svo margt annað sem er miklu mikilvægara. Ég er brautryðjandi og vakna klukkan sex á morgnana til að fara í starfið svo að ég get ekki verið að skemmta mér til klukkan eitt eða tvö á næturnar. Ég veit að það þarf ekki að vera neitt slæmt að skemmta sér með vinum sínum en maður getur orðið allt of upptekinn af því. Það þarf að halda því innan skynsamlegra marka eins og öllu öðru.“

15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að velja sér afþreyingu sem endurnærir?

15 Það er hlutverk foreldra að fullnægja efnislegum, andlegum og tilfinningalegum þörfum sjálfra sín og barnanna. Það felur í sér að sjá fyrir hæfilegri afþreyingu. Ef þú ert foreldri máttu ekki vera gleðispillir og hugsa sem svo að öll afþreying sé af hinu illa. En þú þarft samt að vera á verði fyrir skaðlegum áhrifum. (1. Kor. 5:6) Með hæfilegri fyrirhyggju er hægt að velja afþreyingu og skemmtun sem endurnærir fjölskylduna. * Þá eruð þið á réttri braut og styrkið sambandið við Jehóva.

FJÖLSKYLDUBÖND

16, 17. Hvaða sorg hafa margir foreldrar upplifað og hvernig vitum við að Jehóva skilur kvöl þeirra?

16 Samband foreldra og barna er svo sterkt að Jehóva notaði það til að lýsa því hve vænt honum þætti um þjóð sína. (Jes. 49:15) Það er því eðlilegt að syrgja ef einhver í fjölskyldunni yfirgefur Jehóva. „Ég var niðurbrotin,“ segir systir nokkur en dóttur hennar var vikið úr söfnuðinum. „Hvers vegna yfirgaf hún Jehóva? hugsaði ég með mér. Ég var með sektarkennd og ásakaði sjálfa mig.“

17 Jehóva skilur kvöl þína. Hann „hryggðist í hjarta sínu“ þegar fyrsti sonur hans á jörð gerði uppreisn og síðan flestir menn sem voru uppi fyrir flóðið. (1. Mós. 6:5, 6) Það getur verið erfitt fyrir þá sem hafa aldrei orðið fyrir slíkum missi að skilja hve sár hann er. Það væri samt ekki skynsamlegt að láta óviturlega lífsstefnu þess sem vikið er úr söfnuðinum gera sig fjarlægan Jehóva. En hvernig geturðu borið sorgina sem fylgir því að ástvinur yfirgefur Jehóva?

18. Af hverju ættu foreldrar ekki að kenna sjálfum sér um ef barn þeirra yfirgefur Jehóva?

18 Kenndu ekki sjálfum þér um hvernig fór. Jehóva leyfir mönnunum að velja hvaða leið þeir fara og vígðir og skírðir einstaklingar þurfa að „bera sína byrði“ sjálfir. (Gal. 6:5) Þú berð ekki ábyrgð á ákvörðunum syndarans heldur gerir hann það sjálfur. (Esek. 18:20) Og kenndu ekki öðrum um heldur. Virtu aðferð Jehóva til að aga þjóna sína. Stattu gegn Satan en ekki gegn öldungunum sem leggja sig fram um að vernda söfnuðinn. – 1. Pét. 5:8, 9.

Það er ekkert rangt við það að vonast eftir að ástvinur snúi aftur til Jehóva.

19, 20. (a) Hvað geta foreldrar gert til að takast á við sorgina ef börnum þeirra er vikið úr söfnuðinum? (b) Hvaða von er eðlilegt að slíkir foreldrar beri í brjósti?

19 Þú fjarlægist hins vegar Jehóva ef þú velur að reiðast honum. Barnið þitt þarf að sjá að þú sért ákveðinn í að láta sambandið við Jehóva ganga fyrir öllu öðru, meira að segja fjölskylduböndunum. Varðveittu náið samband við Jehóva, það hjálpar þér að takast á við sorgina. Einangraðu þig ekki frá bræðrum þínum og systrum sem eru Jehóva trú. (Orðskv. 18:1) Úthelltu hjarta þínu fyrir Jehóva í bæn og segðu honum hvernig þér líður. (Sálm. 62:8, 9) Reyndu ekki að finna þér afsakanir fyrir því að eiga samskipti við þá sem vikið er úr söfnuðinum, til dæmis með tölvupósti. (1. Kor. 5:11) Vertu önnum kafinn í þjónustu Jehóva. (1. Kor. 15:58) Systirin, sem vitnað var til áðan, segir: „Ég veit að ég þarf að vera upptekin í þjónustu Jehóva og viðhalda nánu sambandi við hann þannig að ég sé fær um að hjálpa dóttur minni þegar hún snýr aftur til Jehóva.“

20 Kærleikurinn „vonar allt“ eins og segir í Biblíunni. (1. Kor. 13:4, 7) Það er ekkert rangt við það að vonast eftir að barnið þitt snúi aftur til Jehóva. Margir sem vikið er úr söfnuðinum iðrast og snúa aftur. Jehóva erfir ekki við þá það sem liðið er heldur er hann „fús til að fyrirgefa“. – Sálm. 86:5.

TAKTU VITURLEGAR ÁKVARÐANIR

21, 22.  Hvernig ætlarðu að nota valfrelsið sem þér er gefið?

21 Jehóva gaf mönnunum frelsi til að velja hvaða leið þeir fara. (Lestu 5. Mósebók 30:19, 20.) En frelsinu fylgir alvarleg ábyrgð. Kristnir menn ættu hver og einn að spyrja sig: Á hvaða braut er ég? Hef ég leyft atvinnu, afþreyingu eða fjölskylduböndum að gera mig fjarlægan Jehóva?

22 Jehóva elskar þjóna sína og það er ekkert sem fær því breytt. Það eina sem getur gert okkur fjarlæg honum er að við veljum ranga braut. (Rómv. 8:38, 39) En það þarf ekki að gerast. Vertu staðráðinn í að láta ekkert gera þig viðskila við kærleika Jehóva. Í næstu grein ræðum við um fjögur svið til viðbótar þar sem við þurfum að velja rétt.

^ Í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 38. kafla, má finna nánari upplýsingar um það hvernig hægt sé að velja sér starfsvettvang.

^ Finna má tillögur í 2. bindi bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 32. kafla.