Mín gæði eru það að vera nálægt Guði
ÉG HÆTTI að vaxa þegar ég var níu ára. Það var fyrir 34 árum á Fílabeinsströndinni og enn þann dag í dag er ég ekki nema einn metri á hæð. Þegar í ljós kom að ég væri hætt að vaxa hvöttu foreldrar mínir mig til að leggja mig fram við vinnu svo að ég myndi ekki hugsa of mikið um hvernig ég liti út. Ég setti upp ávaxtabás fyrir framan húsið okkar og sá til þess að hann væri aðlaðandi. Þannig fékk ég marga viðskiptavini.
Það breytti auðvitað ekki öllu þó að ég legði hart að mér við vinnu. Ég var eftir sem áður mjög lágvaxin og jafnvel einföldustu hlutir gerðu mér erfitt fyrir, eins og hæðin á afgreiðsluborðum í búðum. Allt virtist vera hannað fyrir fólk sem var næstum tvöfalt hærra en ég. Ég vorkenndi sjálfri mér, en þegar ég var 14 ára breyttist það.
Dag einn komu til mín tvær konur sem voru vottar Jehóva. Þær keyptu ávexti og buðu mér svo biblíunámskeið sem ég þáði. Ekki leið á löngu þar til ég áttaði mig á að það að kynnast Jehóva og vilja hans skipti meira máli en líkamlegt ástand mitt. Það gerði mér gott. Sálmur 73:28 varð uppáhaldsversið mitt en fyrsti hluti versins segir: „Mín gæði eru það að vera nálægt Guði.“
Við fjölskyldan fluttumst skyndilega til Búrkína Fasó og þar með gerbreyttist líf mitt. Ég hafði verið kunnugleg sjón við ávaxtabásinn í gamla hverfinu okkar á Fílabeinsströndinni. En á nýja staðnum þekkti mig enginn og mörgum fannst ég líta furðulega út. Fólk glápti á mig. Það varð til þess að ég hélt mig innandyra vikum saman. Með tímanum mundi ég hversu gott það hafði gert mér að vera nálægt Jehóva. Ég skrifaði bréf til deildarskrifstofu Votta Jehóva og þeir sendu einmitt réttu manneskjuna – Nani, trúboða sem keyrði um á vespu.
Malarvegirnir í nágrenninu voru alltaf hálir og á regntímanum urðu þeir líka forugir. Nani féll margsinnis á vespunni á leiðinni í biblíunámið en hún lét það ekki stoppa sig. Dag einn bauð hún mér að koma með sér á samkomurnar. Ég gerði mér grein fyrir að ég þyrfti þá að hætta mér út úr húsi og þola að fólk starði á mig. Þar að auki yrði vespan þyngri ef ég sæti á henni líka og þá yrði
enn erfiðara að stýra henni. En ég þáði samt boðið með það í huga sem stendur í öðrum hluta uppáhaldsversins míns: „Ég gerði Drottin að athvarfi mínu.“Við Nani steyptumst stundum um koll í leðjunni en það var þess virði til að komast á samkomurnar. Það var allt annað að sjá hlýleg bros fólksins í ríkissalnum en glápandi fólkið á götunum. Ég skírðist níu mánuðum síðar.
,Ég segi frá öllum verkum þínum,‘ er þriðji hluti uppáhaldsversins míns. Ég vissi að boðunin yrði stærsta áskorun mín. Ég man enn eftir fyrsta skiptinu sem ég boðaði trúna hús úr húsi. Börn jafnt sem fullorðnir gláptu á mig, eltu mig og hermdu eftir því hvernig ég gekk. Það var mjög særandi en ég minnti mig stöðugt á að þau þyrftu jafn mikið á paradísinni að halda og ég, og þannig gat ég haldið áfram.
Til að auðvelda mér að komast leiðar minnar fékk ég mér handknúið þríhjól. Starfsfélagi minn ýtti mér upp brekkur og stökk svo á þríhjólið niður brekkurnar. Þótt boðunin hafi reynt á í fyrstu varð hún mér fljótlega mikill gleðigjafi, svo mikill að ég gerðist brautryðjandi árið 1998.
Ég hélt mörg biblíunámskeið og fjórir nemenda minna létu skírast. Auk þess tók ein systra minna við sannleikanum. Að heyra af framförum annarra var mér oft mikil uppörvun einmitt þegar ég þurfti á henni að halda. Eitt sinn, þegar ég var með malaríu, barst mér bréf frá Fílabeinsströndinni. Ég hafði komið af stað biblíunámskeiði með háskólanema í Búrkína Fasó og síðan beðið bróður að taka við því. Nemandinn hafði síðar flust til Fílabeinsstrandarinnar. Ég var himinlifandi að frétta að hann væri nú orðinn óskírður boðberi!
Hvernig sé ég fyrir mér? Samtök, sem aðstoða fatlaða, buðust til að kenna mér að sauma. Einn kennaranna tók eftir hve vinnusöm ég var og sagði: „Við ættum að kenna þér að búa til sápu.“ Og svo fór. Núna bý ég til þvottasápu og handsápu heima hjá mér. Fólki finnst sápan góð og mælir með henni við aðra. Ég fer á vélknúnu þríhjóli og afhendi fólki sápuna sjálf.
Ég er með hryggskekkju og því miður versnuðu verkirnir sem fylgja henni svo mikið að ég þurfti að hætta brautryðjandastarfinu árið 2004. Samt sem áður tek ég enn mikinn þátt í boðuninni.
Fólk segir að ég sé þekkt fyrir smitandi bros mitt. Ég hef fulla ástæðu til að vera glöð af því að það hefur gert mér gott að vera nálægt Guði. – Sarah Maiga segir frá.