Mig langar að deyja – getur Biblían hjálpað mér þegar ég fæ sjálfsvígshugsanir?
Svar Biblíunnar
Já. Biblían er frá Guði, „sem hughreystir niðurdregna“. (2. Korintubréf 7:6) Biblían er ekki sálfræðihandbók en hún hefur hjálpað mörgum að vinna bug á sjálfsvíshugsunum. Góð ráð hennar geta líka hjálpað þér.
Hvaða gagnlegu ráð gefur Biblían?
• Segðu einhverjum hvernig þér líður.
Hvað segir Biblían? „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ – Orðskviðirnir 17:17.
Skýring: Við þurfum á stuðningi annarra að halda þegar hugsanir okkar valda okkur kvölum.
Neikvæðar tilfinningar gætu orðið þér ofviða ef þú segir engum frá því hvernig þér líður. Það gæti hins vegar dregið úr neikvæðum tilfinningum að segja frá þeim og þú gætir jafnvel séð hlutina í nýju ljósi.
Prófaðu eftirfarandi: Talaðu við einhvern í dag, kannski einhvern í fjölskyldunni eða traustan vin. a Þú gætir líka reynt að skrifa niður tilfinningar þínar.
• Fáðu læknisaðstoð.
Hvað segir Biblían? „Heilbrigðir þurfa ekki á lækni að halda heldur þeir sem eru veikir.“ – Matteus 9:12.
Skýring: Við ættum að leita læknishjálpar þegar við erum veik.
Sjálfsvígshugsanir geta verið eitt einkenni geðrænna eða andlegra sjúkdóma. Það ekkert til að skammast sín fyrir, ekki frekar en þegar um líkamleg veikindi er að ræða. Það er hægt að meðhöndla geðræn eða andleg veikindi.
Prófaðu þetta: Leitaðu þér læknishjálpar eins fljótt og hægt er.
• Mundu að Guði er annt um þig.
Hvað segir Biblían? „Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Samt gleymir Guð engum þeirra ... Verið óhrædd, þið eruð meira virði en margir spörvar.“ – Lúkas 12:6, 7.
Skýring: Þú ert dýrmætur í augum Guðs.
Þér finnst þú kannski einn á báti en Guð veit hvað þú ert að ganga í gegnum. Honum þykir vænt um þig – jafnvel þótt þú hafir misst löngunina til að lifa. „Sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta,“ segir í Sálmi 51:19. Guð vill að þú lifir vegna þess að hann elskar þig.
Prófaðu þetta: Skoðaðu í Biblíunni sannanir fyrir því að Guð elskar þig. Þú getur til dæmis skoðað 24. kaflann í biblíunámsbókinni Nálægðu þig Jehóva.
• Leitaðu til Guðs í bæn.
Hvað segir Biblían? „Varpið öllum áhyggjum ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.
Skýring: Guð vill að þú segir honum hvernig þér líður og hvað hvílir á hjarta þínu.
Guð getur gefið þér bæði innri frið og kraft til að halda út í aðstæðum þínum. (Filippíbréfið 4:6, 7, 13) Þannig annast hann alla sem leita til hans í einlægni. – Sálmur 55:23.
Prófaðu þetta: Leitaðu til Guðs í bæn í dag. Notaðu nafn hans, Jehóva, og segðu honum hvernig þér líður. (Sálmur 83:19) Biddu hann að hjálpa þér að halda út.
• Hugleiddu vonina sem Biblían gefur um framtíðina.
Hvað segir Biblían? „Þessi von okkar er eins og akkeri fyrir sálina, bæði traust og örugg.“ – Hebreabréfið 6:19, neðanmáls.
Skýring: Tilfinningar þínar gætu verið óstöðugar líkt og bátur í fárviðri, en vonin sem Biblían gefur getur hjálpað þér að ná tilfinningalegu jafnvægi.
Þessi von er ekki byggð á draumórum heldur á loforði Guðs um að fjarlægja það sem veldur okkur sársauka. – Opinberunarbókin 21:4.
Prófaðu þetta: Kynntu þér von Biblíunnar með því að lesa 5. kafla bæklingsins Gleðifréttir frá Guði.
• Gerðu eitthvað sem þú hefur ánægju af.
Hvað segir Biblían? „Glatt hjarta veitir góða heilsubót.“ – Orðskviðirnir 17:22.
Skýring: Við bætum andlega og líkamlega heilsu okkar þegar við gerum eitthvað sem veitir okkur ánægju.
Prófaðu þetta: Gerðu eitthvað sem þér finnst venjulega ánægjulegt. Það gæti verið að hlusta á uppbyggilega tónlist, lesa eitthvað uppörvandi eða gera eitthvað annað sem þú hefur ánægju af. Þú verður líka ánægðari ef þú gerir eitthvað til að hjálpa öðrum. Og það þarf ekki að vera eitthvað mikið. – Postulasagan 20:35.
• Hugsaðu vel um líkamlega heilsu þína.
Hvað segir Biblían? „Líkamleg æfing er gagnleg.“ – 1. Tímóteusarbréf 4:8.
Skýring: Við höfum gott af því að hreyfa okkur, fá nægilegan svefn og borða hollt.
Prófaðu þetta: Gakktu rösklega í alla vega 15 mínútur.
• Mundu að tilfinningar breytast eins og annað í lífinu.
Hvað segir Biblían? „Þið vitið ekki hvernig líf ykkar verður á morgun.“ – Jakobsbréfið 4:14.
Skýring: Íþyngjandi vandamál, jafnvel þau sem virðast óleysanleg, gætu verið tímabundin.
Sama hversu ömurleg staðan virðist vera núna gæti hún breyst á morgun. Leitaðu því leiða til að halda út. (2. Korintubréf 4:8) Eftir því sem tíminn líður eiga aðstæður þínar líklega eftir að breytast en sjálfsvíg verður ekki tekið til baka.
Prófaðu þetta: Lestu frásögur í Biblíunni af fólki sem leið svo illa að það langaði til að deyja og taktu eftir hvernig líf þeirra breyttist að lokum til hins betra – oft á þann hátt sem það sá ekki fyrir. Tökum nokkur dæmi.
Segir Biblían frá fólki sem langaði til að deyja?
Já, í Biblíunni er að finna frásögur af fólki sem sagðist vilja deyja. Guð ásakaði það ekki fyrir að líða þannig heldur bauð því hjálp. Hann getur hjálpað þér líka.
Elía
• Hver var hann? Elía var hugrakkur spámaður. En hann var stundum niðurdreginn. „Elía var maður eins og við,“ segir í Jakobsbréfinu 5:17.
• Hvers vegna vildi hann deyja? Eitt sinn var Elía einmana og hræddur og honum fannst hann einskis virði. Hann bað því Jehóva: „Mál er nú ... að þú takir líf mitt.“ – 1. Konungabók 19:4.
• Hvað hjálpaði honum? Elía sagði Guði hvernig honum leið. Hvernig uppörvaði Guð hann? Hann sýndi honum umhyggju og dæmi um hversu máttugur hann er. Guð fullvissaði Elía líka um að hann væri dýrmætur og fékk honum umhyggjusaman og hæfan aðstoðarmann.
▸ Lestu um Elía: 1. Konungabók 19:2–18.
Job
• Hver var hann? Hann var auðugur maður sem átti stóra fjölskyldu. Hann tilbað trúfastlega hinn sanna Guð.
• Hvers vegna vildi hann deyja? Líf Jobs breyttist snögglega á hræðilegan hátt. Hann missti allar eigur sínar. Öll börnin hans létust í hamförum. Hann fékk kvalafullan sjúkdóm. Og að lokum var hann ranglega sakaður um að vera valdur að eigin ógæfu. Job sagði: „Ég er uppgefinn, ég vil ekki lifa lengur.“ – Jobsbók 7:16.
• Hvað hjálpaði honum? Job bað til Guðs og talaði við aðra. (Jobsbók 10:1–3) Elíhú, umhyggjusamur vinur hans, uppörvaði hann og hjálpaði honum að sjá heildarmyndina. Síðast en ekki síst þáði Job leiðsögn og hjálp Guðs.
▸ Lestu um Job: Jobsbók 1:1–3, 13–22; 2:7; 3:1–13; 36:1–7; 38:1–3; 42:1, 2, 10–13.
Móse
• Hver var hann? Hann var leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar og trúfastur spámaður.
• Hvers vegna vildi hann deyja? Hann var með mikla ábyrgð og þurfti að þola stöðuga gagnrýni. Honum fannst hann uppgefinn. Þess vegna grátbað hann Guð: „Deyð mig.“ – 4. Mósebók 11:11, 15.
• Hvað hjálpaði honum? Móse sagði Guði hvernig honum leið. Guð hjálpaði honum að dreifa álaginu til að minnka streitu.
▸ Lestu um Móse: 4. Mósebók 11:4–6, 10–17.
a Hringdu í hjálparsíma á svæðinu ef þú hefur áleitnar sjálfsvígshugsanir og nærð ekki í einhvern sem þú treystir.