Hoppa beint í efnið

UNGT FÓLK SPYR

Hvernig get ég tekist á við veikindi? (1. hluti)

Hvernig get ég tekist á við veikindi? (1. hluti)

 Þekkirðu ungt fólk sem á við alvarleg veikindi að stríða? Ert þú að berjast við veikindi eða fötlun sem koma í veg fyrir að þú getir gert það sem jafnaldrar þínir hafa gaman af?

 Ef sú er raunin er ekki nema eðlilegt að þú sért stundum niðurdreginn. En í Biblíunni er rætt um tvennt sem getur hughreyst þig.

 Margt ungt fólk, sem glímir við erfið veikindi, hefur komist að því að trú á Guð og loforð hans heldur þeim uppi. Sjáum hvað fjögur ungmenni segja.

 YEIMY

 Ég hef þurft að nota hjólastól frá því að ég var 11 ára. Ég er ófær um að gera einföldustu verkin eins og bara að lyfta léttum hlutum.

 Við fimm ára aldur greindist ég með vöðvarýrnun (Muscular dystrophy). Það er hrörnunarsjúkdómur sem setur mér miklar skorður. Stundum verð ég niðurdreginn vegna þess að ég get ekki gert sömu hluti og jafnaldrar mínir. En foreldrar mínir og trúsystkini veita mér líkamlegan, andlegan og tilfinningalegan stuðning. Ég er brautryðjandi og trúsystkini mín fara oft með mér þegar ég kenni áhugasömu fólki það sem stendur í Biblíunni.

 Jesús sagði að hverjum degi nægi sín þjáning. (Matteus 6:34) Ég reyni því að taka einn dag í einu og setja mér raunhæf markmið sem ég get náð. Ég hlakka til þegar ég eignast „hið sanna líf“ í nýjum heimi Guðs og losna við þennan hamlandi sjúkdóm. – 1. Tímóteusarbréf 6:19.

 Til umhugsunar: Yeimy finnst gagnlegt að setja sér raunhæf markmið. Hvernig getur þú gert slíkt hið sama? – 1. Korintubréf 9:26.

 MATTEO

 Ég fór að finna fyrir verkjum í bakinu þegar ég var sex ára. Í fyrstu sögðu læknarnir að þetta væru bara vaxtarverkir. Ári seinna uppgötvuðu þeir æxli við hrygginn.

 Ég fór í aðgerð en það var aðeins hægt að fjarlægja um 40 prósent af æxlinu. Og eftir aðeins tvo mánuði hafði æxlið aftur náð upprunalegri stærð. Síðan þá hef ég farið í margar rannsóknir og meðferðir og oft orðið fyrir vonbrigðum.

 Stundum veldur æxlið miklum sársauka sem er eins og hnífsstungur um allan líkamann. Aðallega finn ég þó til í baki og bringu. Samt sem áður reyni ég að láta ástandið ekki hafa allt of mikil áhrif á mig. Ég minni sjálfan mig á að aðrir hafa líka gengið í gegnum hræðilega hluti en hafa samt haldið áfram að vera jákvæðir. Helsta hjálp mín til að vera jákvæður er að ég treysti því að Jehóva Guð muni einn dag uppfylla loforð sitt um að binda enda á allar þjáningar. – Opinberunarbókin 21:4.

 Til umhugsunar: Það var Matteo mikil hjálp að hugsa um loforð Guðs um að binda enda á þjáningar. Hvernig getur það hjálpað þér líka? – Jesaja 65:17.

 BRUNA

 Þar sem það sést ekki á mér að ég sé veik halda sumir að ég sé bara löt. En málið er að allt getur verið erfitt fyrir mig, hvort sem það er nám, heimilisverk eða jafnvel að fara á fætur.

 Þegar ég var 16 ára greindist ég með MS (Multiple Sclerosis). Þetta er lamandi sjúkdómur sem stigmagnast. Hann hefur áhrif á það hve mikla vinnu ég ræð við og ég get ekki tekið eins mikinn þátt og ég vildi í kristilegu starfi. Ég las 1. Pétursbréf 5:7 aftur og aftur en þar segir: „Varpið allri áhyggju ykkar á [Guð] því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ Það hefur veitt mér styrk, og gerir enn, að hugsa til þess að Jehóva beri umhyggju fyrir okkur hverju og einu.

 Til umhugsunar: Hvernig getur það verið þér til gagns að varpa áhyggjum þínum á Jehóva eins og Bruna gerir? – Sálmur 55:23.

 ANDRÉ

 Sumir koma fram við mig eins og ég sé 10 ára. Það er þó varla við þau að sakast því að ég lít út fyrir að vera það.

 Þegar ég var tveggja ára greindist ég með sjaldgæfa tegund krabbameins í mænu sem dreifði sér til heilans. Læknar náðu að hemja sjúkdóminn en meðferðin hafði áhrif á vöxt minn. Í dag er ég bara 1,37 metrar á hæð. Margir halda að ég sé að ljúga þegar ég segi að ég sé 18 ára.

 Í kristna söfnuðinum virðir fólk mig. Það er ekki með barnalega hrekki eins og krakkarnir sem ég var með í skóla. Ég reyni að líta aðstæður mínar jákvæðum augum. Reyndar hef ég fengið það besta sem nokkur maður getur fengið – ég hef kynnst Jehóva! Sama hvað ég þarf að ganga í gegnum er ég fullviss um að Jehóva stendur alltaf með mér. Að hugsa um hinn stórkostlega nýja heim, sem Jehóva Guð hefur lofað, hjálpar mér að varðveita jákvætt hugarfar. – Jesaja 33:24.

 Til umhugsunar: „Það besta sem nokkur maður getur fengið,“ eins og André orðar það, er að kynnast Jehóva. Hvers vegna? – Jóhannes 17:3.