Biblía á daglegu máli
Nýheimsþýðing Grísku ritninganna gefin út
„Ef við trúum að Biblían hafi að geyma orð Guðs til mannkyns þýðir það að Guð talar við okkur ... Ef trúin á að hafa áhrif á allt líf okkar þarf Biblían að vera á daglegu máli.“ Þetta skrifaði fræðimaðurinn Alan S. Duthie í bók sinni Bible Translations and How to Choose Between Them.
Þeir sem elska orð Guðs taka heilshugar undir þessi orð. Þeir trúa því staðfastlega að ,öll Ritningin sé innblásin af Guði og gagnleg til að kenna, áminna, leiðrétta og aga fólk í að gera það sem er rétt.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Biblían er ekki bara gömul bók heldur er hún ,lifandi og kraftmikil‘ og býður fram raunhæfar lausnir á vandamálum daglegs lífs. (Hebreabréfið 4:12) En til að fólk geti skilið þessa helgu bók og farið eftir henni þarf hún að vera á daglegu máli, læsileg og skiljanleg fyrir almenna lesendur.
Það er fagnaðarefni fyrir þá sem elska orð Guðs að fá Nýheimsþýðingu Grísku ritninganna á íslensku. Vottar Jehóva tilkynntu hinn 19. júlí 2019 að hún væri komin út. Þessi þýðing er skýr, nákvæm og nútímaleg og auðveldar íslenskumælandi fólki að skilja boðskap Guðs betur en nokkru sinni fyrr. En hverjir standa að þessari einstöku þýðingu?
Þýðendurnir gefa Guði heiðurinn
Þó að Nýheimsþýðing Grísku ritninganna hafi ekki komið út á íslensku áður hefur hún verið til allt frá árinu 1950. Biblíu- og smáritafélagið Varðturninn gaf hana út á ensku það ár, en það er alþjóðlegt biblíufélag sem hafði þá gefið út biblíur áratugum saman. Í Varðturninum (á ensku) 15. september 1950 segir: „Þeir sem skipa þýðingarnefndina hafa óskað nafnleyndar ... og hafa tekið sérstaklega fram að þeir vilji ekki að nöfn þeirra séu birt hvorki að sér lifandi né látnum. Markmiðið með þýðingunni er að upphefja nafn hins lifandi og sanna Guðs.“
Nýheimsþýðing Biblíunnar kom út í heild sinni árið 1961. Nöfn þýðendanna hafa aldrei verið gefin upp en enginn vafi leikur á að þeir voru guðræknir og unnu verkið af réttum hvötum. Í formála útgáfunnar frá 2013 segir: „Okkur er ljóst hve mikilvægur boðskapur Biblíunnar er og við höfum því ráðist í að endurskoða textann með djúpstæðri virðingu fyrir efni hennar. Við skynjum hve mikil ábyrgð hvílir á okkur að koma boðskap hennar nákvæmlega til skila ... Markmið okkar hefur verið að gefa út þýðingu sem er ekki aðeins trú frumtextanum heldur einnig skýr og auðlesin.“
Þegar þetta er skrifað nemur upplag Nýheimsþýðingarinnar í heild eða að hluta 230 milljónum á um 180 tungumálum. Hvað hafa lesendur hennar uppgötvað?
Þýðing sem helgar nafn Guðs
Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja: „Faðir okkar á himnum, við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matteus 6:9) Guð er nefndur með nafni sínu, Jehóva, næstum 7.000 sinnum í Biblíunni. (2. Mósebók 3:15; Sálmur 83:18) Eftir að postular Jesú dóu smitaðist kristni söfnuðurinn af þeirri ranghugmynd margra Gyðinga að það mætti ekki nefna Guð með nafni. (Postulasagan 20:29, 30; 1. Tímóteusarbréf 4:1) Þeir sem afrituðu hinn gríska hluta Biblíunnar fóru að setja inn orð sem merktu ,Guð‘ og ,Drottinn‘ í stað nafns Guðs, Jehóva.
Þýðingarnefnd Nýheimsþýðingarinnar hefur sett nafnið Jehóva inn aftur þar sem það á heima í Grísku ritningunum. a Nafnið stendur þar 237 sinnum og það er ekki byggt á geðþótta þýðendanna heldur á vandaðri fræðimennsku. Í Lúkasi 4:18 er til dæmis vitnað í Jesaja 61:1. Nafnið Jehóva stóð í þessu versi í Jesaja samkvæmt hebreska frumtextanum. Þess vegna er eðlilegt að Lúkas 4:18 sé þýtt eins og gert er í Nýheimsþýðingunni: „Andi Jehóva er yfir mér því að hann smurði mig til að flytja fátækum fagnaðarboðskap.“
Þegar þýtt er á þennan hátt á lesandinn auðvelt með að gera greinarmun á Jehóva Guði og einkasyni hans, Jesú Kristi. Í mörgum þýðingum er Matteus 22:44 orðað svona: „Drottinn sagði við minn drottin.“ (Biblían 2010) Hver er að tala við hvern? Í þessu versi er reyndar vitnað í Sálm 110:1 en þar stendur nafn Guðs í hebreska frumtextanum. Í Nýheimsþýðingunni er Matteus 22:44 þar af leiðandi orðað svona: „Jehóva sagði við Drottin minn.“ Það er ekki bara fræðilegt atriði að greina á milli Jehóva Guðs og sonar hans. (Markús 13:32; Jóhannes 8:17, 18; 14:28) Við verðum að gera þennan greinarmun til að bjargast. Í Postulasögunni 2:21 stendur: „Allir sem ákalla nafn Jehóva bjargast.“
Skýr og nákvæm
Þess var vandlega gætt að þýða gríska frumtextann eins rétt og nákvæmlega og hægt var á einfalt og nútímalegt mál. Í Nýheimsþýðingunni er til dæmis leitast við að koma blæbrigðum grískra sagna til skila. Í mörgum nútímamálum beygjast sagnir í tíðum – það er, þátíð, nútíð eða framtíð. Sagnorð í grísku lýsa einnig hvers konar verknað er um að ræða – hvort hann stendur stutt, honum er lokið eða ólokið. Lítum á orð Jesú í Jóhannesi 15:8. Gríska sögnin sem merkir ,að bera‘ gefur til kynna áframhaldandi verknað. Til að ná fram merkingunni að fullu er versið því þýtt: „Það er föður mínum til dýrðar að þið haldið áfram að bera mikinn ávöxt og reynist vera lærisveinar mínir.“ Af sömu ástæðu er Matteus 7:7 þýtt: „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur.“ – Rómverjabréfið 6:2.
Annað dæmi um nákvæmt orðalag má finna í Postulasögunni 13:48. Í mörgum Biblíum er versið orðað svona: „Allir þeir sem ætlaðir voru til eilífs lífs tóku trú.“ Það mætti skilja þetta orðalag svo að Guð hafi ákveðið örlög fólks fyrir fram og þar með hverjir hljóti eilíft líf. Gríski textinn gefur hins vegar til kynna að fólk þurfi að hafa rétt hugarfar og leita leiðsagnar Guðs til að hljóta eilíft líf. Í Nýheimsþýðingunni er versið því orðað svona: „Allir sem höfðu það hugarfar sem þurfti til að hljóta eilíft líf tóku trú.“
Merkingin getur stundum brenglast ef þýtt er orðrétt. Algengt er að orð Jesú í Matteusi 5:3 séu þýdd eitthvað þessu líkt: „Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.“ En í mörgum tungumálum er óljóst hvað orðrétta þýðingin ,fátækur í anda‘ merkir. Samkvæmt orðanna hljóðan virðist það geta merkt að hafa lítið vit eða skorta greind. En Jesús er að kenna fólki að sönn hamingja byggist ekki á því að fullnægja efnislegum þörfum heldur viðurkenna að það þurfi á leiðsögn Guðs að halda. Merkingin kemst betur til skila ef textinn er þýddur: „Þeir sem skynja andlega þörf sína“ eða „þeir sem skilja að þeir þarfnast Guðs“. – Matteus 5:3, neðanmáls.
Að koma orði Guðs til fólks um allan heim
Útgáfa Grísku ritninganna á íslensku er bara upphafið. Áformað er að þýða alla Biblíuna þegar fram líða stundir. En geta lesendur treyst að íslenska þýðingin verði jafn nákvæm og skýr og sú enska?
Já, vegna þess að þýðingarstarfið er unnið undir náinni umsjón hins stjórnandi ráðs Votta Jehóva. Sú skynsamlega ákvörðun var tekin að þýðing Biblíunnar skyldi vera hópvinna. (Orðskviðirnir 11:14) Sett voru saman þýðingateymi út um allan heim. Til að styðja þessi teymi var komið á fót sérstakri deild við aðalstöðvar Votta Jehóva. Hún kallast þýðingaþjónustan og hefur meðal annars það hlutverk að svara spurningum frá teymunum og tryggja að þýðendur um allan heim beiti sömu aðferðum við að þýða biblíutextann. Auk þess var hugbúnaður sem nefnist Watchtower Translation System þróaður biblíuþýðendum til aðstoðar. Hugbúnaðurinn sýnir meðal annars hvernig hvert hebreskt og grískt orð er þýtt í ensku útgáfunni og það auðveldar þýðendum til muna að velja jafngilt orð á heimamálinu. Mannlegt hugvit er þó eftir sem áður stór þáttur þýðingarvinnunnar. En tölvutæknin hefur hjálpað biblíuþýðendum mjög að ná því háleita markmiði að þýða Nýheimsþýðinguna af sömu nákvæmni og skýrleika og gert er í ensku útgáfunni.
Við hvetjum þig til að kynna þér Nýheimsþýðingu Grísku ritninganna vel. Þú getur lesið hana á netinu eða í appinu JW Library, eða þá fengið prentað eintak hjá næsta söfnuði Votta Jehóva. Letrið er skýrt og læsilegt. Hverri biblíubók fylgir yfirlit yfir efni hvers kafla sem getur auðveldað þér að finna kunnugleg vers og í viðauka er að finna margs konar fróðleik. Síðast en ekki síst geturðu lesið þessa biblíu í trausti þess að hún komi boðskap Guðs til skila af nákvæmni og á daglegu máli.
Nýheimsþýðingin í hnotskurn
Yfirlit: Í byrjun hverrar biblíubókar er yfirlit sem hjálpar lesandanum að finna kunnugleg vers.
Nákvæm þýðing: Þess var vandlega gætt að þýða gríska frumtextann eins rétt og nákvæmlega og hægt er á ensku og síðan íslensku.
Þægilegt letur: Ný leturgerð var hönnuð til að auðvelda lestur.
Efnisgreinar: Vers eru flokkuð saman í efnisgreinar til að auðvelda lesandanum að fylgja hugsun biblíuritarans.
Neðanmálsgreinar: Gefa aðra hugsanlega þýðingu, orðrétta þýðingu eða viðbótarupplýsingar.
Orðalykill: Listi yfir valin orð sem sýnir hvar þau standa í Biblíunni og í hvaða samhengi.
Orðaskýringar: Stutt skýring á rúmlega 200 orðum sem koma fyrir í Biblíunni.
a Almennt kallað Nýja testamentið.